„Við höfum fest kaup á þremur samliggjandi jörðum sem eru í sjónlínu við Geysi og með útsýni yfir Langjökul í allar áttir,“ segir Birgir Örn Arnarson, stjórnarformaður fasteignaþróunarfélagsins Arwen, í samtali við Morgunblaðið í dag, en umfangsmiklar framkvæmdir á vegum félagsins eru á teikniborðinu.
Félagið hyggst byggja þúsund manna ferðaþjónustuþorp á jörðunum á næstu fjórum til fimm árum, að sögn Birgis Arnar. Hann segir þjónustumiðstöðina henta ferðamönnum sem fari Gullnahringinn svonefnda sem nýtur mikilla vinsælda hjá ferðamönnum.
Stefnt er að því að reisa þorpið eins fljótt og hægt er, með hagkvæmum en vönduðum byggingaraðferðum.
Fasteignaþróunarfélagið Arwen hefur í nægu að snúast um þessar mundir.
Félagið er að ljúka við nýbyggingu undir bjórspa og veitingastað fyrir Bruggsmiðju Kalda á Árskógssandi þar sem gestir njóta meðal annars útsýnis yfir Eyjafjörð, Hrísey og Kaldbak.
Félagið er einnig að byggja 1.450 fermetra hús við Seljaveg í Reykjavík undir íbúðir og þjónustu, að því er fram kemur í umfjölluin um hinar áformuðu framkvæmdir í Morgunblaðinu í dag.
Mikil vaxtaráform eru í ferðaþjónustunni víða þessi misserin, en gert er ráð fyrir því, samkvæmt spám, að heildarfjöldi ferðamanna fari fyrir 2,3 milljónir manna á þessu ári. Vöxturinn í greininni hefur verið ævintýri líkastur en árið 2010 komu ríflega 450 þúsund ferðamenn til landsins á ári.