„Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu var 537,7 stig í febrúar 2017 (janúar 1994=100) og hækkaði um 2,5% frá fyrri mánuði. Síðastliðna 3 mánuði hækkaði vísitalan um 5,8%, síðastliðna 6 mánuði hækkaði hún um 9,7% og síðastliðna 12 mánuði hækkaði hún um 18,6%.“
Þetta kemur fram á vef Þjóðskrár.
Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu sýnir breytingar á vegnu meðaltali fermetraverðs, en miklar hækkanir hafa einkennt gang mála á markaðnum að undanförnu.
Íbúðarhúsnæði er skipt í flokka eftir stærð og hvort það telst fjölbýli eða sérbýli. Reiknað er meðalfermetraverð fyrir 9 flokka íbúðarhúsnæðis.
Niðurstaðan er vegin með hlutdeild viðkomandi flokks í heildarverðmæti á markaði miðað við undangengna 24 mánuði.
Fasteignaverð hækkaði um 15 prósent í fyrra en hækkanirnar hafa verið töluvert meiri í byrjun þessa árs.
Mikill skortur á íbúðum á markaði hefur ýtt undir hækkun fasteignaverðs, en á vef Þjóðskrár á dögunum koma fram að líklega vantaði um átta þúsund íbúðir á markað, miðað við sögulega þróun, til að mæta eftirspurninni á markaðnum.