Mannréttindadómstóll Evrópu komst að þeirri niðurstöðu í morgun að dómur Hæstaréttar yfir Steingrími Sævarri Ólafssyni, fyrrverandi ritstjóra Pressunnar, hefði brotið gegn tjáningarfrelsi hans. Hæstiréttur dæmdi Steingrím fyrir meiðyrði árið 2013.
Málið gegn Steingrími höfðaði Ægir Geirdal, vegna ummæla tveggja systra sem sökuðu hann um barnaníð. Ummælin birtust á Pressunni árið 2010, þegar Ægir var í framboði til stjórnlagaþings. Pressan birti grein sem var byggð á bréfi sem systurnar birtu og viðtali við aðra þeirra. Einnig var rætt við Ægi og hann neitaði þessum ásökunum. Fleiri fréttir voru birtar í kjölfarið, meðal annars um hótanir um málaferli gegn systrunum.
Ægir höfðaði hins vegar mál gegn Steingrími, en Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði hann. Hæstiréttur snéri þeim dómi í byrjun árs 2013 og dæmdi Steingrím til að greiða Ægi 200 þúsund krónur í miskabætur og 800 þúsund krónur í málskostnað.
Hæstiréttur féllst á að Ægir hefði þurft að þola umfjöllun á opinberum vettvangi af því að hann gaf kost á sér til trúnaðarstarfa í þágu almennings. Það hafi hins vegar ekki réttlætt ásakanir gagnvart honum, sem hann hafi aldrei verið rannsakaður eða dæmdur fyrir. Mannréttindadómstóllinn taldi rök íslenskra dómstóla gild en þau nægi alls ekki til að réttlæta inngrip í málið. Hæstiréttur hafi ekki gætt meðalhófs.
Þetta er langt frá því að vera fyrsti dómurinn þar sem íslenska ríkið er dæmt fyrir brot gegn tjáningarfrelsi. Í dómnum frá því í morgun er vísað í mál Erlu Hlynsdóttur og Bjarkar Eiðsdóttur, sem báðar unnu mál sín fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, Erla oftar en einu sinni.