Ríkið og stofnanir þess fengu þriðjung þess fjár sem úthlutað var úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða í vikunni. Sveitarfélög fengu langmest, um 66 prósent og einkaaðilar fengu aðeins þrjú prósent, samkvæmt útreikningum Kjarnans.
Ríkið og stofnanir ríkisins fengu úthlutað rúmlega 183 milljónum króna úr sjóðnum, sem er á fjárlögum. Sveitarfélög fengu ríflega 400 milljónir króna og einkaaðilar tæplega 20 milljónir.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hefur kynnt drög að frumvarpi um breytingar á sjóðnum, sem myndi koma í veg fyrir að ríkið sjálft væri að sækja um styrki í sjóði sem það eru á fjárlögum. „Telja verður að óheppilegt sé að ríkisaðilar þurfi eða geti sótt fjármögnun slíkra framkvæmda í samkeppnissjóð eins og Framkvæmdasjóð ferðamannastaða,“ eins og segir í greinargerð með frumvarpinu.
Þannig mun hlutverk Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða breytast til að koma í veg fyrir þessa skörun, og gert ráð fyrir að sjóðurinn sinni aðeins verkefnum á ferðamannastöðum í eigu eða umsjón sveitarfélaga og einkaaðila.
Til þess að standa að uppbyggingu á ferðamannastöðum í eigu og umsjá ríkisins verður ný landsáætlun umhverfisráðherra notuð, en landsáætlunin er um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum vegna álags af völdum ferðamennsku og útivistar. Landsáætlunin verður langtímaáætlun en hins vegar verður lögð fram skammtímaáætlun fyrir þetta ár. Þessi áætlun verður fjármögnuð beint úr ríkissjóði á fjárlögum.
Þá verður kveðið á um það í lögum, samkvæmt frumvarpinu, að ferðamannastaðir sem hljóta úthlutun úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða skulu vera opnir gjaldfrjálsri umferð almennings, sem er í samræmi við önnur lög. Þó verður landeigendum áfram heimilt að taka gjald fyrir veitta þjónustu á staðnum.