Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir að hann reikni með því að starf við breytingar á stjórnarskrá Íslands í samræmi við stefnu Viðreisnar og ríkisstjórnarinnar muni hefjast á næstu vikum. „Reynslan sýnir að það er tímafrekt starf og erfitt og þarf að vinnast í nánu samráði allra flokka. Ég reikna með að það hefjist á næstu vikum.“
Á kjörtímabilinu sem stóð yfir 2009-2013 lagði stjórnlagaráð, sem kosið var til af þjóðinni, fram frumvarp um miklar breytingar á stjórnarskrá íslenska lýðveldisins. Frumvarpið var lagt fram árið 2011. Kosið var um tillögur ráðsins haustið 2012 þar sem tveir af hverjum þremur sem tók þátt í kosningunum sagðist vilja að tillögur ráðsins yrðu lagðar til grundvallar nýrri stjórnarskrá. Í tillögunum var meðal annars að finna ákvæði um að auðlindir yrðu þjóðareign og að tiltekið hlutfall kosningabærra manna geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu.
Þar voru einnig tillögur um stórtækar breytingar á íslenska kosningakerfinu þar sem lagt var til að heimila aukið persónukjör og að atkvæði landsmanna myndu öll gilda jafn mikið, en mikið ósamræmi er í því vægi á milli landshluta í dag. Báðar tillögurnar voru samþykktar með yfirgnæfandi meirihluta í þjóðaratkvæðagreiðslunni í október 2012.
Þrátt fyrir það hafa þessar breytingar á stjórnarskrá ekki orðið að veruleika.
Ekkert breyttist á síðasta kjörtímabili
Á síðasta kjörtímabili var skipuð þverpóltísk stjórnarskrárnefnd sem skilaði af sér niðurstöðu í þremur frumvörpum í byrjun árs í fyrra. Fyrsta var um ákvæði um auðlindir náttúru Íslands og að þær séu þjóðareign. Annað frumvarpið um umhverfi og náttúru þar sem mælt er fyrir um ábyrgð á vernd náttúru og að varúðar- og langtímasjónarmið verði höfð að leiðarljósi. Ekki náðist sátt um að ráðast í þessar breytingar á síðasta kjörtímabili.
Í aðdraganda síðustu kosninga voru ýmsir flokkar með breytingar á stjórnarskrá á stefnuskrá sinni. Þar á meðal voru bæði Björt Framtíð og Viðreisn, sem nú sitja í ríkisstjórn. Á heimasíðu Viðreisnar,undir liðnum „Málefnin“, segir um stjórnarskrármál:„Ná þarf samkomulagi um heildstætt, skýrt og tímasett ferli sem hefur að markmiði að til verði ný stjórnarskrá. Það ferli á að taka mið af tillögum Stjórnlagaráðs og annarri vinnu að breytingum á síðari stigum.“ Í pólitískum áherslum Bjartrar framtíðar, eins og þær eru fram settar á heimasíðu flokksins, segir: „Setjum þjóðinni nýja stjórnarskrá á grunni tillagna Stjórnlagaráðs, í sem mestri sátt. Vöndum okkur.“
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði hins vegar í útvarpsviðtali í aðdraganda kosninga að það væri eitt af helstu kosningamálum flokks síns að ekki yrði tekin upp ný stjórnarskrá á Íslandi.
Vilja ná sem bestri sátt
Stjórnarskrármál rötuðu þrátt fyrir það inn í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Bjarna Benediktssonar. Þar segir að unnið verði að endurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins Íslands á grundvelli þess viðamikla starfs sem átt hefur sér stað undanfarin ár. Ríkisstjórnin muni bjóða öllum þingflokkum á Alþingi að skipa fulltrúa í þingmannanefnd sem muni starfa með færustu sérfræðingum á sviði stjórnskipunar að sem bestri sátt um tillögur að breytingum sem verði lagðar fram eigi síðar en árið 2019. Samkvæmt Benedikt er sú vinna nú að fara að hefjast.
Í stjórnarsáttmálanum segir að það sé sérstakt markmið að „breytingatillögur fái góða kynningu og umræðu fyrir framlagningu á Alþingi og vandaða þinglega meðferð sem eftir atvikum verði með opnum fundum. Hugað verði að breytingum á kjördæmaskipan með hliðsjón af þeirri reynslu sem fengist hefur af síðustu breytingum í þeim efnum. Kosningalöggjöf verði yfirfarin samhliða því starfi með það fyrir augum að hún verði einfaldari og miði að meira jafnræði í atkvæðavægi.“