Heiðar Guðjónsson verður áfram stjórnarformaður Fjarskipta, móðurfélags Vodafone. Sjálfkjörið var í stjórn félagsins á aðalfundi í gær. Auk Heiðars sitja í stjórninni Anna Guðný Aradóttir, Hildur Dungal, Hjörleifur Pálsson og Yngvi Halldórsson. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallar.
Þrír stærstu eigendur Fjarskipta eru lífeyrissjóðirnir Gildi, LSR og Lífeyrissjóður verslunarmanna. Þeir eiga samanlagt tæpan þriðjung í Fjarskiptum. Félag Heiðars, Ursus, er sem stendur fjórði stærsti eigandi félagsins með 6,4 prósent hlut. Það mun breytast á næstunni því aðalfundurinn samþykkti í gær að hækka hlutafé sitt um 32,4 milljónir hluta og nota hækkunina að öllu leyti til að greiða fyrir þær eignir sem Fjarskipti hafa samþykkt að kaupa af 365 miðlum.
Um er að ræða fjarskipta- og ljósvakamiðla 365 auk fréttavefsins Vísir.is. Eigendur 365 miðla munu því fá um tíu prósent hlut í Fjarskiptum á genginu 52,5 krónur á hlut. Virði hlutarins samkvæmt kaupsamningi er því 1,7 milljarðar króna. Miðað við gengi Vodafone á markaði í dag, sem er 59,4 krónur á hlut, er virði hlutarins hins vegar rúmlega 1,9 milljarðar króna.
Stærsti eigandi 365 miðla eru félög í eigu Ingibjargar Pálmadóttur. Þau munu eignast um 7,5 prósent hlut í Fjarskiptum gangi kaupin í gegn og verða þar með óbeint þriðji stærsti eigandi félagsins. Ingibjörg og tengdir aðilar yrðu líka stærsti einstaklingsfjárfestarnir í Fjarskiptum, þ.e. með stærri eignarhlut en stjórnarformaðurinn Heiðar Guðjónsson.
Samkeppniseftirlitið á hins vegar eftir að samþykkja kaup Fjarskipta á umræddum eignum 365 miðla og mun taka sér 110 daga til að skoða samrunan. Ef af verður þá mun eiga sér stað stærsti samruni fjarskipta og fjölmiðlunar Í Íslandssögunni.
Kjarninn fjallaði ítarlega um kaup Fjarskipta á flestum eignum 365 miðla í fréttaskýringu í vikunni.