Lánshæfismatsfyrirtækið Standard & Poor´s hefur hækkað lánshæfiseinkunn Íslands um einn flokk, úr A-1 í A fyrir langtímaskuldbindingar. Einkuninn hækkar einnig fyrir skammtímaskuldbindingar, úr A-2 í A-1. Þetta kemur fram á vef fyrirtækisins.
Ástæðan fyrir hækkuninni er losun fjármagnashafta, en frá og með 14. mars hefur verið losað svo til alveg um fjármagnshöft á einstaklinga, fyrirtæki og lífeyrissjóði.
Í umfjöllun fyrirtækisins um stöðu mála á Íslandi segir að það sé mat fyrirtækisins, að Seðlabanki Íslands búi yfir þeim vopnum sem þarf að búa yfir, til að takast á við aðstæður sem geti komið upp í hagkerfin, samhliða losun fjármagnshafta. Þá er tekið fram enn fremur að íslenskir lífeyrissjóðir séu líklegir til að dreifa eignum sínum meira á næstunni, og þá einkum erlendis.
Fyrirtækið spáir áframhaldandi hagvexti hér á landi, og kemur fram að hann gæti verið 3,5 prósent á þessu ári, og drifinn áfram af miklum vexti í ferðaþjónustu. Þá segir enn fremur að fyrirtækið telji sig greina merki um ofhitnun, en styrkingar umgjörðar ríkisfjármála vegi upp á móti hættunni af ofhitnun.
Í fyrra var um 7,2 prósent hagvöxtur á Íslandi, þar sem erlendir ferðamenn voru í lykilhlutverki. Þeir voru 1,8 milljónir í fyrra en því er spáð að fjöldinn verði 2,3 milljónir á þessu ári.
Fasteignaverð hefur hækkað gríðarlega hratt, eða um 18,6 prósent á síðustu tólf mánuðum.