Benedikt Jóhannesson fjármála- og efnahagsráðherra segir það „algjörlega óviðunandi fyrir Íslendinga“ að vita ekki hverjir standi á bak við kaup á tæplega 30 prósenta hlut í Arion banka. Hann hafi haft samband við forstjóra Fjármálaeftirlitsins um það að upplýst verði hverjir séu endanlegir eigendur þessara hluta.
Í gær var tilkynnt um að þrír vogunarsjóðir, Taconic Capital, Och-ZiffCapital og Attestor Capital, og Goldman Sachs-bankinn hefðu saman keypt 29,18 prósent hlut í Arion banka. Kaupverðið eru 48,8 milljarðar króna og selt var í lokuðu útboði. Fjárfestarnir fá einnig kauprétt á 21,9 prósent hlut til viðbótar á verði sem hefur ekki verið uppgefið, en er sagt hærra en það sem þeir greiddu í þessari lotu. Ekkert liggur hins vegar fyrir um það hverjir eru endanlegir eigendur þess fjár sem verið er að nota.
Fjármálaeftirlitið tilkynnti svo í dag að það muni ekki fara yfir hæfi vogunarsjóðanna til að fara með virkan eignarhlut í bankanum. Til að FME meti hæfi aðila til að fara með virkan eignarhlut þurfa þeir að eiga í minnsta lagi tíu prósent hlut, en tveir þeirra keyptu 9,99 prósenta hlut.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, spurði Benedikt út í málið í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. Hún talaði meðal annars um mikilvægi þess að upplýsa um endanlega eigendur og sagði að þessi tala, 9,99 prósent, væri væntanlega ekki tilviljun. Því sagðist Benedikt vera sammála, það sé mjög ólíklegt að talan sé tilviljun. „Ég vil líka taka undir með háttvirtum þingmanni að það er afar mikilvægt í slíkum tilvikum að vita hverjir eru endanlegir eigendur, það er að segja hverjir eiga þessa sjóði sem um ræðir.“
Hann sagði rétt að upplýsa að það væri ekki fjármálaráðuenytið sem metur hæfi manna til að fara með eignarhlut, heldur Fjármálaeftirlitið. „Þó almenna reglan sé að miðað sé við 10 prósent eignarhald þá getur Fjármálaeftirlitið, ef eignarhald er til dæmis dreift, horft á aðila sem eiga verulegan eignarhlut eða eignarhlut sem er líklegur til að vera ráðandi sérstaklega þótt tölunni 10 prósent sé ekki náð.“ Þetta þyrfti að fara yfir, en honum væri ekki kunnugt um að kaupendurnir væru tengdir aðilar í skilningi laga.
„Kannski eru þeir ekki tengdir aðilar en þeir ráðast sameiginelga í þessi kaup. Þarf ekki Fjármálaeftirlitið að kanna hæfi þeirra?“ spurði Katrín þá ráðherrann. Hún sagði það algjört prinsippmál og spurning um almannahagsmuni, og spurði hvernig ráðherrann hygðist tryggja að þetta yrði gert.
Því svaraði Benedikt að hann hefði haft samband við forstjóra Fjármálaeftirlitsins vegna málsins, og það væri „algjörlega óviðunandi fyrir Íslendinga að vita ekki hverjir standa þarna á bak við.“