Hvergi í heiminum hækkaði húsnæðisverð meira á milli áranna 2015 og 2016 en á Íslandi, samkvæmt greiningu fyrirtækisins Knight Frank. Hækkunin á milli síðustu fjórðunga 2015 og 2016 er metin 14,7 prósent en meðaltalið í heiminum er um 6 prósent og í Evrópu 5,4 prósent.
Hækkunin hefur þó verið enn meira hér á landi á síðustu mánuðum, og metur Þjóðskrá hækkunina nú 18,6 prósent. Mælt er út frá þinglýstum kaupsamningum og því um frumgögn að ræða.
Í skýrslu Knight Frank er verðhækkunin á Íslandi rakin til styrkari efnahags og aukins áhuga erlendra fjárfesta á Íslandi. Ein vegamesta ástæða hækkunarinnar er þó sú, að mikil þörf er á því að auka framboð lítilla og meðalstórra íbúða, og metur Þjóðskrá vöntunina um átta þúsund íbúðir.
Stjórnvöld vinna nú að því að kortleggja upplýsingar um stöðu mála með það að markmiði að flýta uppbyggingum íbúða og auka framboð eigna. Samráðsfundur með forsvarsfólki sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu fór fram í dag, þar sem Þorsteinn Víglundsson, velferðarráðherra, ræddi um stöðu mála, en ríkisstjórnin hefur boðað aðgerðir á næstu vikum til að létta á spennu á markaði auka framboð eigan.
Samkvæmt tölum Knight Frank hefur fasteignaverð hækkað næst mest á Nýja Sjálandi, um 12,7%, og þar á eftir á Möltu og í Kanada. Nýja Sjáland hefur líkt og Ísland verið að ganga í gegnum gríðarlega miklar breytingar samhliða vexti í ferðaþjónustu, sem hefur haft mikil áhrif á gang efnahagsmála til hins betra.