Þorsteinn Víglundsson, velferðarráðherra, gerir umfjöllun í Silfrinu á RÚV, að umtalsefni á Facebook síðu sinni og segist hann velta því fyrir sér hvort ekki sé hægt ræða um málin með uppbyggilegum hætti, í stað þess að tala með „niðrandi hætti“ um menn og málefni.
„Ég velti því stundum fyrir mér hvort ekki sé hægt að taka uppbyggilega umræðu um það sem betur má fara í samfélaginu án þess að þurfa að tala með niðrandi hætti um núverandi fyrirkomulag eða þá sem við það starfa. Sjálfur efast ég ekki um góðan ásetning Mikaels í garð þeirra sem glíma við fátækt.“
„Að sama skapi efast ég ekki um minn eigin vilja í þeim efnum eða allra sem ég hef kynnst á stuttum starfstíma mínum í Velferðarráðuneytinu eða inni á Alþingi. Ég er sannfærður um að allir þeir sem á þingi eru í dag brenna fyrir hugsjónum sínum og vilja láta gott af sér leiða þó svo skoðanir geti verið misjafnar á því hvaða leiðir séu bestar,“ segir Þorsteinn á Facebook síðu sinni.
Í fyrrnefndum þætti gagnrýndi Mikael stjórnvöld harðlega fyrir að búa til fátæktargildrur í samfélaginu sem væru sífellt að stækka. Nefndi hann meðal annars stöðu mála á leigumarkaði máli sínu til stuðnings, en margir ættu í stökustu vandræðum með að ná saman endum um hver mánaðarmót, vegna hárrar leigu. Sagði hann ríkisstjórnina vera „ríkisstjórn atvinnulífsins“ sem hugsaði ekki um þá fátæku í samfélaginu.
Þættir Mikaels á Rás 1 um fátækt hafa vakið athygli og umtal, í þáttunum er fjallað um fátækt á Íslandi frá ýmsum hliðum.
Þorsteinn segir í færslu sinni á ríkisstjórnin sem nú hafi starfað í um tvo mánuði hafa mikinn metnað fyrir því efla velferðarmálaflokkinn. Hann segist jafnframt ekki finna fyrir öðru á Alþingi en að þingmenn í öllum flokkum séu tilbúnir að gera slíkt hið sama. Þrátt fyrir góðar hagtölur og mikla kaupmáttaraukningu, að meðaltali, þá þurfi ávallt að sýna metnað þegar kemur að því að aðstoða þá sem þurfa á því að halda.
„Þó svo við stöldrum við og hrósum því sem vel hefur tekist til með (og fjölmargir eiga lof skilið fyrir) dregur það ekki á nokkurn hátt úr metnaði okkar til að gera betur. Það þýðir einungis að við höfum úr betri stöðu að spila en ella. Þessi ríkisstjórn mun, líkt og fyrri ríkisstjórnir, verða dæmd af verkum sínum líkt og aðrar ríkisstjórnir.“
„Áform hennar um forgangsröðun í þágu velferðar eru sett fram með skýrum hætti í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Þau áform munu endurspeglast í fyrstu fimm ára ríkisfjármálaáætlun stjórnarinnar, sem kynnt verður á næstu vikum, fjárlögum næsta árs og þeim frumvörpum sem lögð verða fram á næstu vikum og mánuðum. Ég reikna með að Mikael muni kynna sér þau áform vandlega og vonandi koma með uppbyggilega gagnrýni á. Sjálfur er ég ávallt reiðubúinn að hlusta á slík ráð og taka slíkt samtal,“ segir Þorsteinn á Facebook síðu sinni.