44 prósent íslenskra heimila eru með áskrift að efnisveitunni Netflix samkvæmt nýrri könnun sem Gallup gerði fyrir FRÍSK, félag rétthafa í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaði. Þrjú til fjögur prósent heimila eru einnig með áskrift að öðrum erlendum veitum, eins og Google Play og Amazon Prime Video.
Í fréttatilkynningu frá FRÍSK kemur fram að rétt um mánuði áður en Netflix opnaði formlega á Íslandi, í desember 2015, hafi könnun sýnt að 22 prósent heimila væru með Netflix.
„Erlendar efnisveitur á borð við Google Play og Netflix, sem hafa opnað fyrir þjónustu sína á Íslandi, sem og rafrænar tónlistarveitur á borð við Spotify og Google Music, greiða engan virðisaukaskatt eða önnur opinber gjöld hér á landi. Íslenski sjónvarps- og kvikmyndaiðnaðurinn greiðir samanlagt um 12 milljarða króna árlega til hins opinbera og skapar að lágmarki 1.300 ársverk í landinu (2.000 óbein ársverk). Erlendar efnisveitur borga ekkert og skapa engin ársverk,“ segir í tilkynningu frá FRÍSK.
Hallgrímur Kristinsson, stjórnarformaður FRÍSK, segir að félagsmenn kvíði ekki samkepppni við erlendar efnisveitur, en að slík samkeppni þurfi að fara fram á jafnréttisgrundvelli. „Álögur og kvaðir á innlenda aðila verða að lækka ellegar verður minna innlent efni í boði og við sitjum uppi með erlendar efnisveitur og erlent efni. Rannsóknir sýna að tæp 88% landsmanna telja mikilvægt að sýnt sé innlent sjónvarps- og kvikmyndaefni. Það er því með öllu ótækt að erlendar efnisveitur borgi hér engan virðisaukaskatt, skattur á tónlist og bókum sé 11% en myndefnisveitur og kvikmyndahús borgi 24%“
Samkvæmt könnun Gallup og útreikningum hafi innlendir aðilar og rétthafar orðið af tæpum 1,7 milljarði króna í viðskiptum árlega vegna samkeppni við Netflix og aðrar þjónustur.
Samtökin vilja að Alþingi taki umsvifalaust skref í þá átt að jafna samkeppnisumhverfið gagnvart þeim erlendu efnisveitum, og dragi úr álögum á íslenska iðnaðinn.