Einn stærsti eigandi aflandskróna segir að með því að hafna tilboði Seðlabanka Íslands um að selja þeim evrur fyrir krónur á genginu 137.5 krónur fyrir hverja evru, séu þeir að veðja á að fá hagstæðara gengi þegar höftum verður að fullu aflétt.
Þetta kemur fram í umfjöllun Bloomberg, þar sem rætt er við Peter Sheehan, aðalgreinanda bandaríska Loomis Sayles & Co., sem á aflandskrónur fyrir um 50 milljarða króna. Hann segir sjóðinn horfa til þess að fá hagstæðara gengi og því hafi tilboði stjórnvalda ekki verið tekið.
Um 200 milljarðar aflandskróna eru enn í hinni svonefndu aflandskrónusnjóhengju. Vogunarsjóðir halda á þessari eign að mestu, en auk Loomis eru það Eaton Vance Corp., Autonomy Capital LP and Discovery Capital LLC. Tilboð stjórnvalda um kaup á fyrrnefndu gengi rennur út 28. mars, og því skýrist það fyrst þá hvernig staðan verður varðandi aflandskrónurnar.
Eaton Vance og Autonomy Capital eiga aðild að dómsmáli gagnvart stjórnvöldum, sem snýrt að því þegar hluti aflandskrónuvandans var leystu á gengi sem nam um 190 krónum fyrir hverja evru. Sjóðirnir telja stjórnvöld hafa verið í órétti í þessum aðgerðum.
Sheehan segir í viðtali við Bloomberg að það sé vilji Loomis Sayles & Co. að sýna þolinmæði, og bíða eftir hagstæðara gengi. „Við erum tilbúin að horfa til langs tíma og bíða þar til jafnvægi næst á milli aflandsgengis og markaðsgengis,“ segir Sheehan, og vitnar meðal annars til betri lánshæfiseinkunnar Íslands, sem gefi tilefni til þolinmæði. „Við erum tilbúin að taka áhættuna […] þessu ferli,“ segir Sheehans.
Eins og kunnugt er var höftum aflétt að langmestu leyti á almenning, lífeyrissjóði og fyrirtæki, hinn 12. mars síðastliðinn. Útaf stendur ennþá hluti aflandskrónuvandans, eins og áður segir. Ekki er ljóst enn hversu langan tíma mun taka að leysa hann.
Markaðsgengi evru gagnvart krónu, er nú 119 krónur. Gengi krónu gagnvart evru hefur veikst lítið eitt að undanförnu, en sé horft til undanfarins árs hefur það styrkst um 15 prósent.