Þrátt fyrir að ríkissjóður fái greitt til sín allt söluandvirði tæplega 30 prósent hlutar Kaupþings í Arion banka, tæpa 49 milljarða króna, færir salan Kaupþing nær þeim tímapunkti að geta greitt 750 milljónir dollara, jafnvirði ríflega 81 milljarðs króna, út til eigenda sinna.
„Þessir fjármunir eru fastir inni í félaginu á grundvelli stöðugleikaskilyrða stjórnvalda, allt þar til Kaupþing hefur að fullu greitt upp skuldabréf sem það gaf út í tengslum við nauðasamning og framseldi til íslenska ríkisins, að fjárhæð 84 milljarðar króna,“ segir í umfjöllun um þessi mál í Morgunblaðinu í dag.
Þá kemur enn fremur fram að stjórnvöld hafi gert sér grein fyrir því að líkur væru á því að kröfuhafar myndu selja sjálfum sér hlutinn í Arion banka, en líkur á því hefðu verið taldar hverfandi.
„Fyrrnefnt stöðugleikaskilyrði miðaði að því að eigendur Kaupþings losuðu um eignarhlut sinn í Arion banka innan þriggja ára, enda var skuldabréfið sem Kaupþing gaf út bundið þeim kvöðum að aðeins er hægt að greiða inn á það með söluandvirði Arion banka. Þrátt fyrir að stjórnvöld hafi gert sér grein fyrir hættunni á því að eigendur Kaupþings gætu selt sjálfum sér hlutinn í bankanum, voru líkur á því taldar hverfandi,“ segir í umfjöllun Morgunblaðsins.
Eftir kaupin er Kaupskil, félag í eigu Kaupþings, enn stærsti eigandi Arion banka með 57,9 prósent hlut. Íslenska ríkið á 13 prósent en sjóðirnir Attestor Capital LLP (í gegnum Trinity Invesment Designated Acitivity Company) og Taconic Capital Advisors UK LLP (í gegnum TCA New Sidecar III s.a.r.l.) eiga nú 9,99 prósent hlut hvor. Þá mun Sculptor Investments s.a.r.l. (félag tengt Och-Ziff Capital Management Group) eiga 6,6 prósent hlut og Goldman Sachs International 2,6 prósent hlut (í gegnum ELQ Investors II Ltd.).