Landsbankinn og Íslandsbanki, sem íslenska ríkið á að nær öllu leyti, greiða 34,8 milljarða í arð til ríkisins vegna reksturs þeirra í fyrra. Landsbankinn hélt aðalfund sinn í gær og var þar samþykkt að greiða 24,8 milljarða krón í arð, og fer það að langmestu leyti til ríkisins, sem á rúmlega 98 prósent hlut í bankanum. Aðalfundur Íslandsbanka fór fram í dag og var samþykkt á fundinum að greiða 10 milljarða í arð til ríksins, sem á öll hlutabréf í bankanum.
Í stjórn Íslandsbanka voru kjörin: Anna Þórðardóttir, Auður Finnbogadóttir, Árni Stefánsson, Hallgrímur Snorrason, Heiðrún Jónsdóttir, Helga Valfells og Friðrik Sophusson, sem einnig var kjörinn formaður stjórnar, að því er segir í tilkynningu.
Herdís Gunnarsdóttir og Pálmi Kristinsson voru kjörin í varastjórn bankans. Stjórn bankans var einnig fengin heimild til að kalla til sérstaks hluthafafundar síðar á árinu þar sem tillaga um greiðslu arðs af hagnaði fyrri rekstrarára kann að vera lögð fram, að því er segir í tilkynningu.
Í máli Friðriks Sophussonar á aðalfundinum kom jafnframt fram að íslenska bankakerfið hafi minnkað úr rúmlega áttfaldri landsframleiðslu árið 2008 niður undir tvöfalda landsframleiðslu í lok 2015. Kerfið hafi því minnkað um 80 prósent samkvæmt þeim mælikvarða og væri nú hóflegt að stærð í samanburði við bankakerfin annars staðar á Norðurlöndunum.