Átta þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa skorað á Sigríði Andersen dómsmálaráðherra að stöðva tafarlaust allar endursendingar á fólki sem sótt hefur um alþjóðlega vernd hér á landi til Ítalíu og Grikklands.
Þetta kemur fram í áskoruninni sem þingmennirnir sendu ráðherranum í dag. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Andrés Ingi Jónsson, Gunnar Hrafn Jónsson, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Logi Einarsson, Guðjón S. Brjánsson, Ásta Guðrún Helgadóttir og Steinunn Þóra Árnadóttir skrifa undir áskorunina.
Þau skora einnig á ráðherra að grípa til tafarlausra aðgerða til þess að tryggja að meðferð íslenskra stjórnvalda á umsækjendum um alþjóðlega vernd sé ávallt í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands.
„Nýlegar fréttir af málum Amir Shokrgozar og Abdolhamid Rahmani, sem vísað var af landi brott og sendir
til Ítalíu annars vegar og Grikklands hins vegar, vekja sérstakar áhyggjur undirritaðra. Amir, sem er
samkynhneigður flóttamaður frá Íran, á nú á hættu að verða sendur aftur til Íran þar sem hannsér fram á á
dauðadóm fyrir kynhneigð sína. Abdolhamid, sem er flóttamaður frá Afganistan, var í hungurverkfalli vegna
meðferðar íslenskra stjórnvalda þegar hann var handtekinn og sendur úr landi til Grikklands,“ segir í áskoruninni.
Þingmennirnir vekja athygli á því að Mannréttindadómstóll Evrópu hafi ítrekað úrskurðað að endursendingar flóttamanna til landa þar sem hætt er á að þeir verði sendir áfram til landsvæðis þar sem grundvallarréttindum þeirra sé hætta búin standist á við Mannréttindasáttmála Evrópu, og alþjóðlegan flóttamannarétt.
„Þá ber að geta þess að Mannréttindadómstóllinn hefur ekki snúið við þeim ákvörðunum
sínum að endursendingar aðildarríkja til Grikklands stangast á við mannréttindasáttmálann, vegna
óviðunandi aðbúnaðar flóttamanna þar í landi. Sömuleiðis hefur dómsstóllinn gert alvarlegar athugasemdir
við endursendingar viðkvæmra og varnarlausra einstaklinga til Ítalíu vegna bágra aðstæðna þar.
Dómsmálaráðuneytið hætti af þessum sökum endursendingum til þessara ríkja í desember 2015. Undirrituð
telja þá ákvörðun enn eiga rétt á sér. Enn býr flóttafólk við óviðunandi aðstæður í þessum ríkjum.“