Á höfuðborgarsvæðinu er nú tæplega fjögur þúsund íbúðir í byggingu sem koma munu á markað á næstu tveimur árum, og þá er fjöldi byggingarsvæða tilbúinn fyrir hraða uppbyggingu. Jafnvægi mun þó ekki skapast á markaðnum fyrr en eftir 3 til 4 ár, að því er segir í umfjöllun Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) um stöðu mála á fasteignamarkaði svæðisins.
Mikil spenna hefur einkennt markaðinn að undanförnu vegna skorts á íbúðum til sölu, og hefur fasteignaverð hækkað hratt, meðal annars af þeim sökum. Hækkunin nemur 18,6 prósentum á síðustu tólf mánuðum. Þjóðskrá hefur metið það sem svo, miðað við sögulega þróun, að það vanti um átta þúsund íbúðir inn á markaðinn til að anna eftirspurn.
Líklegt er að talið að fasteignaverð muni halda áfram að hækka á næstu árum, en ráðgjafafyrirtækið Knight Frank segir að hvergi í heiminum hafi verðið hækkað jafn mikið á undanförnu ári og hér á landi.
Í umfjöllun á vef SSH segir að mikil deyfð yfir uppbyggingu í kjölfar bankahrunsins hafi skapað mikinn vanda á markaðnum.
„Stjórn SSH hefur látið taka saman upplýsingar um stöðu húsnæðismála á höfuðborgarsvæðinu og áætlanir um uppbyggingu sveitarfélganna. Eins og margoft hefur verið bent á er skortur á íbúðahúsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Að jafnaði er árleg þörf á nýjum íbúðum á höfuðborgarsvæðinu 1.500 – 1.600 íbúðir. Í kjölfar bankahruns datt nýsmíði íbúða nánast alveg niður og á 7 ára kafla (2009 – 2015) bættust tæplega 1.000 íbúðir við á ári hverju.“
„Að teknu tilliti til lítillar uppbyggingar og þróunar mannfjöldans er það mat SSH að í byrjun árs 2017 skorti um 1.700 íbúðir til að markaðurinn sé í jafnvægi. Á höfuðborgarsvæðinu eru nú tæpar 4.000 íbúðir í byggingu sem koma munu á markað á næstu tveimur árum. Einnig er fjöldi byggingasvæða þar sem hægt er að hefja uppbyggingu strax eða á næstu misserum. Með markvissri uppbyggingu á þessum svæðum mun íbúðamarkaðurinn ná jafnvægi á næstu 3-4 árum,“ segir í umfjölluninni.