Fjárfestar hafa að undanförnu keypt lóðir og fasteignir á svonefndum Héðinsreit í Reykjavík fyrir milljarða króna, að því er segir í Morgunblaðinu í dag. Ólafur Ólafsson, oft kenndur við Samskip, kemur að þessu viðskiptum. Ólafur hlaut fjögurra og hálfs árs fangelsisdóm fyrir Al Thani-málið svokallaða.
Héðinsreitur skiptist í tvo hluta, Seljaveg 2 og Vesturgötu 64. Hugmyndir eru um að byggja tvö hótel, hvort á sínum hluta Héðinsreits.
Fasteignaverkefni eru víða umsvifamikil á höfuðborgarsvæðinu þessi misserin en þrátt fyrir það er mikil vöntun á íbúðum á fasteignamarkað.
Þjóðskrá telur að það vanti um átta þúsund íbúðir á markað, einkum litlar og meðalstórar, til að mæta eftirspurn á markaði. Fasteignaverð hefur rokið upp og hækkað um 18,6 prósent á síðustu tólf mánuðum.