Donald J. Trump Bandaríkjaforseti segir það hafa komið á óvart að ekki hafi verið stuðningur við frumvarp hans um breytingar á heilbrigðistryggingakerfinu sem oft er nefnt Obamacare, en það var eitt helsta áherslumál Baracks Obama fyrrum Bandaríkjaforseta. Með því fengu ríflega 20 milljónir manna í Bandaríkjunum aðgang að heilbrigðisþjónustu með tryggingu, sem áður höfðu ekki haft hana.
Frumvarp Trumps miðaði að því að afnema Obamacare og setja í staðinn upp kerfi sem gerði stórfyrirtækjum og fjárfestum mögulegt að fá ríkulega skattaafslætti, í gegnum tryggingarkerfið, en skerða um leið möguleika einstakra hópa til aðgang að heilbrigðisþjónustunni. Það sem reyndist umdeildast í meðförum þingsins voru efnisatriði sem snéru að því að aðgengi eldra fólks að þjónustu yrði erfiðara og dýrara. Þá hefðu 24 milljónir manna leynt utan heilbrigðistryggingakerfis, í það minnsta tímabundið.
Þegar á hólminn var komið virtist sem frumvarpið yrði fellt í þinginu þar sem 40 þingmenn Repúblikana treystu sér ekki til þess að styðja það, og andstaðan Demókrata var einnig staðföst og hörð. Paul Ryan, forseti fulltrúadeildar þingsins, fór á fund Trumps skömmu áður en atkvæðagreiðslan átti að fara fram og var ákveðið að draga frumvarpið til baka.
Ryan sagði á blaðamannafundi, þegar niðurstaða málsins var ljós, að Obamacare væri enn í fullu gildi og yrði það þangað til breytingar myndu nást fram sem meirihluti þingsins væri sáttur við.