Aðkoma þýska bankans Hauck & Aufhäuser að kaupum á 45,8 prósenta eignarhlut ríkisins í Búnaðarbanka Íslands í ársbyrjun 2003 var í „reynd aðeins að nafni til“ að mati sérstakrar rannsóknarnefndar Alþingis og voru kaupin fjármögnuð í gegnum aflandsfélag á vegum Kaupþings.
Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag, og vísað til bréfi rannsóknarnefndar Alþingis þar sem fyrrnefnd viðskipti eru til umfjöllunar.
„Samkvæmt gögnum sem nefndin hefur aflað sér verði ekki annað séð en „að fjárfesting Hauck & Aufhäuser í gegnum Eglu hf. í, og síðar með sama hætti eignarhald á, hlutum í Búnaðarbankanum hafi […] aðeins verið til málamynda og tímabundið“, auk þess sem þýska bankanum hafi verið „tryggt skaðleysi af þátttöku sinni í þessum viðskiptum“. Þetta kemur fram í bréfi rannsóknarnefndarinnar frá því 13. mars síðastliðinn sem Fréttablaðið hefur undir höndum. Í bréfinu segir að gögn og upplýsingar nefndarinnar „sýna að dagana áður en skrifað var undir kaupsamning Eglu hf. og annarra lögaðila (það er hins svonefnda S-hóps) um kaup á hlut íslenska ríkisins í Búnaðarbankanum hf. 16. janúar 2003, stóð hópur manna að gerð tveggja samninga varðandi hluti Hauck & Aufhäuser í Eglu hf. á milli annars vegar Hauck & Aufhäuser og hins vegar aflandsfélagsins Welling & Partners Limited, skráðu á Bresku-Jómfrúareyjum, sem Kaupþing hf. útvegaði til að standa að samningnum,“ segir í umfjöllun Fréttablaðsins.
Segir í umfjöllun Fréttablaðsins að þar hafi verið um að ræða svonefndan söluréttarsamning (e. Put Option Agreement) en hinn samningurinn varðaði veð- og tryggingaráðstafanir (e. Pledge and Security Agreement). Þeir sem stóðu að gerð þessara samninga, að því er kemur fram í bréfi nefndarinnar, voru meðal annars „nokkrir starfsmenn“ Kaupþings á Íslandi og dótturfélags þess í Lúxemborg og auk þess starfsmenn Hauck & Aufhäuser, einkum þá Martin Zeil, þáverandi forstöðumaður lögfræðideildar bankans.
Í bréfinu, sem vísað er til í Fréttablaðinu, segir að ekki verði séð „að íslenska ríkið eða aðrar stofnanir þess hafi á nokkru stigi verið upplýst um gerð þessara samninga, efni þeirra og áhrif, sem og atvik varðandi síðari framkvæmd þeirra.“
Kaupþing sameinaðist Búnaðarbanka þremur mánuðum eftir söluna á hlut ríkisins. Rúmum tveimur árum eftir að þýski bankinn eignaðist hlut í Búnaðarbankanum í gegnum félagið Eglu var hann búinn að selja allan hlutinn til annarra hluthafa innan S-hópsins en á meðal þeirra sem leiddu þann hóp var Ólafur Ólafsson fjárfestir.
Alþingi samþykkti í júní í fyrra þingsályktunartillögu um að aðkoma Hauck & Aufhäuser að kaupum S-hópsins á 45,8 prósenta hlut ríkisins fyrir um 11,9 milljarða yrði rannsökuð af sérstakri rannsóknarnefnd sem hefði víðtækar heimildir til að kalla eftir upplýsingum. Sá sem fer með rannsóknina er Kjartan Bjarni Björgvinsson héraðsdómari en gert er ráð fyrir að skýrsla nefndarinnar verði birt opinberlega á miðvikudaginn.
Í Fréttablaðinu segir, að í bréfi rannsóknarnefndarinnar, sem var sent á ýmsa einstaklinga sem höfðu aðkomu að kaupunum, að samkvæmt gögnum nefndarinnar hafi þýski bankinn „enga fjárhagslega áhættu tekið“ með þessum viðskiptum. „Fjárhagslegir hagsmunir bankans af þeim hafi takmarkast við þóknun sem samið var um samkvæmt samningunum en öll hagnaðarvon af umræddum hlutum í Eglu hf. þess í stað verið áskilin gagnaðila bankans að samningunum, það er fyrrgreindu aflandsfélagi, Welling & Partners Limited.“
Nokkrir starfsmenn Kaupþings á Íslandi og í Lúxemborg eru sagðir hafa staðið að fyrrnefndum samningnum, samkvæmt frétt Fréttablaðsins.