Engin tilkynning eða kæra vegna meintra mútutilrauna hafa borist til embættis héraðssaksóknara frá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, fyrrverandi forsætisráðherra, né forsætisráðuneytinu. Ásakanir Sigmundar Davíðs um að aðilar á vegum vogunarsjóða sem eiga hagsmuna að gæta á Íslandi hafi reynt að múta honum til að fá sanngjarnari úrlausn sinna mála hafa því ekki verið kannaðar með neinum hætti hjá embættinu. Þetta kemur fram í svari Ólafs Þórs Haukssonar héraðssaksóknara við fyrirspurn Kjarnans um málið.
Sigmundur Davíð sagði í viðtali við útvarpsþáttinn Sprengisand á sunnudag að honum hafi verið boðið að leysa mál vogunarsjóða á Íslandi „á þann hátt að ég gæti verið sáttur við þá og þeir yrðu sáttir og málið leyst. Mér var reyndar líka hótað, oftar hótað en mér var boðin ásættanleg lausn[...]Það voru oftar en einu sinni menn sendir til að tala við mig, spyrja mig hvort að ég væri ekki til í það að klára þetta mál þannig að allir gætu vel við unað.“ Aðspurður hvort hann hefði verið spurður hvort hann væri falur sagði Sigmundur Davíð: „Já, já, ég er að segja það.“
Sigmundur Davíð endurtók svo fullyrðingarnar í útvarpsþættinum Reykjavík síðdegis í gær. Þar sagði hann m.a.: „„Að sjálfsögðu gengur þetta ekki þannig fyrir sig að George Soros sendi manni samning og bjóði manni að fallast á að gera einhverja tiltekna hluti og þá fái maður milljarð í tösku í hólfi á umferðarmiðstöðinni. Menn í fyrsta lagi, senda yfirleitt einhverja aðra, einhverja milliliði, og nálgast viðmælanda með því að segja hluti á borð við; „Er ekki best fyrir alla að við leysum þetta? Við teljum okkur geta fundið flöt á þessu sem er ásættanlegur fyrir Íslendinga og ásættanlegur fyrir okkur og ásættanlegur fyrir þig. Þannig að þú getir leyft þér að hætta að hugsa um þetta stjórnmálavesen og farið að njóta lífsins, það er miklu meira en nóg til skiptanna.““
Engar tilkynningar eða kærur vegna hótana hafa heldur borist embætti héraðssaksóknara frá Sigmundi Davíð né forsætisráðuneytinu.
Í 109. grein almennra hegningarlaga segir: „[Hver sem gefur, lofar eða býður opinberum starfsmanni, [alþingismanni eða gerðarmanni] 1) gjöf eða annan ávinning, sem hann á ekki tilkall til, í þágu hans eða annarra, til að fá hann til að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert sem tengist opinberum skyldum hans skal sæta fangelsi allt að [4 árum] 1) eða sektum ef málsbætur eru fyrir hendi.“
Sagði að brotist hefði verið inn í tölvu hans
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Sigmundur Davíð ber fram ásökun um alvarleg brot gegn sér á meðan að hann gegndi embætti forsætisráðherra. Á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins þann 10. september 2016 sagði Sigmundur Davíð að hann hefði verið eltur á ferðum sínum erlendis af kröfuhöfum í bú föllnu bankanna á meðan hann var forsætisráðherra. Einnig sagðist hann hafa heimildir fyrir því að brotist hafi verið inn í tölvu sína. Honum hafi jafnvel borist boð um að hitta fulltrúa kröfuhafa í einrúmi á afskekktum stöðum svo hægt væri að leysa málin. „Ég veit að það var brotist inn í tölvuna hjá mér,“ sagði Sigmundur Davíð í ræðunni.
Síðar var greint frá því að Sigmundur Davíð hefði sent rekstrarfélagi Stjórnarráðsins beiðni þann 1.apríl 2016 um að skoða tölvu sína vegna gruns hans um mögulegt innbrot. Beiðnin var lögð fram fram tveimur dögum áður en Kastljósþáttur þar sem Sigmundur Davíð var spurður út í aflandsfélagið Wintris var sýndur, og fjórum dögum áður en hann sagði af sér sem forsætisráðherra vegna þeirra upplýsinga sem fram komu í þættinum.
Kjarninn greindi frá því 12. september síðastliðinn að engin staðfest ummerki hefðu fundist um það að innbrot hafi átt sér stað í tölvu Sigmundar Davíðs við ítarlega skoðun rekstrarfélags stjórnarráðsins. Þetta kom fram í svari rekstrarfélagsins við fyrirspurn Kjarnans.
Í október birti Sigmundur Davíð bréf frá Ríkislögreglustjóra vegna skoðunar á meintu innbroti í tölvu hans. Þar kom fram að hann hafi fengið senda þekkta tölvuveiru í tölvupósti og að ríkislögreglustjóri hafi kallað eftir gögnum um málið í kjölfar umfjöllunar fjölmiðla. Rannsókn embættisins hafi hins vegar, að höfðu samráði við ríkissaksóknara, verið hætt nokkrum dögum eftir að hún hófst. Það var gert eftir að upplýsingar bárust frá rekstrarfélagi Stjórnarráðs Íslands sem hafði þegar skoðað hvort að tölva Sigmundar Davíðs hefði orðið fyrir tölvuinnbroti komist að því að engin staðfest merki væru um slíkt í tölvu forsætisráðherrans fyrrverandi.