Kim Jong-Un, leiðtogi Norður-Kóreu, virðist einbeittur í því að koma upp kjarnorkuvopnum og langdrægum flaugum sem geta ógnað helstu andstæðingum ríksins, einkum Japan, Suður-Kóreu og Bandaríkjunum.
Þrátt fyrir mislukkuð skot á flaugum að undanförnu, þá bendir ekkert til þess að hann sé af baki dotti, að því er haft er eftir Fraser Cameron, sem stýr EU-Asia Center stofnuninni, í viðtali við NBC, að allt bendi til þess að leiðtoginn láti sér fátt um finnast þó skot á flaugum misheppnist.
Á undanförnum sex mánuðum hefur tíðni skota á flaugum frá skotsvæðum í Norður-Kóreu aukist jafnt og þétt og hafa flaugarnar sem hafa lent næst Japan, verið í um 350 kílómetra frá landi. Stjórnvöld í Japan hafa harðlega gagnrýnt Norður-Kóreu og krafist tafarlausra aðgerða af hálfu Sameinuðu þjóðanna og einnig óskað eftir meiri stuðningi Bandaríkjanna.
Donald Trump hefur heitið „100 prósent stuðningi” við Japan og Suður-Kóreu og Rex Tillerson, utanríkisráðherra, hefur enn fremur staðfest að Bandaríkin séu tilbúin að beita frumkvæðishernaði ef á þarf að halda, láti Norður-Kórea ekki af tilraunum sínum með flaugar sem geta drifið fleiri þúsund kílómetra í lofti áður en þær springa við lendingu.
Kínverjar hafa lengi verið helsti stuðningur Norður-Kóreu, en ekki er lengur á vísan að róa í þeim efnum. Kínversk stjórnvöld hafa komið því á framfæri að látið verði af tilraunum með langdrægar flaugar þegar í stað.