Sérhæfð leigufélög á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum eiga allt að 40 prósent íbúðarhúsnæðis í almennri útleigu á höfuðborgarsvæðinu og á milli 70 til 80 prósent á Suðurnesjum. Ástæða er til þess að gefa þessari þróun sérstakan gaum og vekja athygli á því hversu mikið vægi fasteignafélög hafa á leigumarkaði.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu, sem hafði til rannsóknar yfirtöku Almenna leigufélagsins, sem er í stýringu Gamma, á BK eignum. Samkeppniseftirlitið telur ekki forsendur til íhlutunar vegna málsins, fyrst og fremst vegna þess að BK eignir eiga helst íbúðir á öðru svæði en Almenna leigufélagið.
Rekstraraðili hins sameinaða félags er fjármálafyrirtækið Gamma, en félagið er stærsta fyrirtæki sinnar tegundar á höfuðborgarsvæðinu með rösklega þúsund íbúðir í eignasafni sínu. Félagið ræður yfir um 5 til 10 prósentum almenna leigumarkaðarins á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt mati Samkeppniseftirlitsins. Á Suðurnesjum er þessi tala 10 til 20 prósent, en þar eru Heimavellir stærri aðili, með 20 til 30 prósenta hlutdeild, og Ásbrú er á sama bili með 10 til 20 prósent markaðarins.
Þrátt fyrir að Samkeppniseftirlitið aðhafist ekkert í yfirtöku Almenna leigufélagsins á BK eignum telur það „rétt að vekja athygli á auknu vægi sérhæfðra leigufélaga á markaði fyrir útleigu á íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum.“ Það sé full ástæða til að gefa þessari þróun sérstakan gaum. „Þótt líklegt sé að lítið framboð á leiguhúsnæði og stóraukin eftirspurn ráði miklu um hækkandi fasteigna- og leiguverð nú um stundir, getur aukin samþjöppun á markaðnum leitt til minnkandi samkeppni til lengri tíma, leigutökum til tjóns.“
Samkeppniseftirlitið tekur einnig fram að frekari samþjöppun í þessari atvinnustarfsemi muni að líkindum kalla á ítarlegar rannsóknir af hálfu eftirlitsins. Þó er einnig sögð full ástæða fyrir önnur stjórnvöld sem að málum koma að meta stöðuna og huga að stjórntækjum á sínum vettvangi, segir eftirlitið.