„Fréttir sem þessar undirstrika nauðsyn þess að endurskoða peningastefnuna. Öfgafullar gengissveiflur krónunnar hafa lengi plagað almenning og fyrirtæki. Á árunum eftir hrun naut sjávarútvegur og aðrar útflutningsgreinar góðs af óvenju veikri stöðu krónunnar en almenningur galt fyrir í háu vöruverði. Nú er þessu öfugt farið og mikil og hröð styrking farin að valda erfiðleikum hjá fjölda útflutningsfyrirtækja, hvort heldur sem er í sjávarútvegi, hugverkageirum eða ferðaþjónustu.“ Þetta skrifaði Þorsteinn Víglundsson, velferðar- og félagsmálaráðherra, á Facebook-síðu sína í gærkvöldi.
„Viðreisn hefur lagt áherslu á fastgengisstefnu í gegnum Myntráð, nokkuð sem gefist hefur vel í fjölda landa. Enn aðrir vilja skoða einhliða upptöku annars gjaldmiðils og síðan er það alltaf spurning um upptöku evru í gegnum aðild að ESB. Fæstir virðast þó orðið trúa því að áframhaldandi vera í rússíbana íslensku krónunnar sé sérstaklega ákjósanlegur kostur.“
Þorsteinn skrifaði færslu sína í tengslum við vanda fyrirtækja í útflutningi, vegna styrkingar krónunnar og mikilla launahækkana að undanförnu. Stjórnvöld eru nú að vinna að því að endurskoða peningastefnu landsins. Að störfum er verkefnisstjórn, en í henni eru þrír hagfræðingar. Ásdís Kristjánsdóttir, hagfræðingur hjá Samtökun atvinnulífsins, Ásgeir Jónsson, dósent við Háskóla Íslands, og Illugi Gunnarsson, fyrrverandi þingmaður og ráðherra.
Reiknað er með því að endurskoðun peningastefnunnar ljúki fyrir árslok.
Í yfirlýsingu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS), þar sem farið er yfir stöðu efnahagsmála á Íslandi, er sérstaklega vikið að þeirri hættu sem geti skapast á Íslandi vegn mikil innstreymis gjaldeyris, meðal annars frá erlendum ferðamönnum. Í yfirlýsingunni segir að það geti reynst erfitt að afstýra „óhóflegu fjármagnsinnstreymi“ og að viðbrögðin þurfi að vera samstillt, svo að hagstjórnin verði rétt.
„Þjóðhagsvarúðarstefnu skal beitt eftir þörfum til að lágmarka kerfisáhættu. Best er að nota fjárstreymistæki einungis sem neyðarvörn. Slík tæki eiga ekki að koma í staðinn fyrir nauðsynlega þjóðhagslega aðlögun, sem gæti falið í sér frekari styrkingu krónunnar og stækkun gjaldeyrisforða. Þetta svigrúm sem og skortur á skýrum tengslum milli fjárstreymis og kerfisáhættu gefur til kynna að bindingarskylda vegna innflæðis á skuldabréfamarkað sé óþörf að svo stöddu. Samt sem áður ætti notkun slíkrar bindingarskyldu að vera áfram heimil að lögum,“ segir í yfirlýsingu AGS.
Meginþunginn í gjaldeyrisinnstreymi er vegna mikils vaxtar í ferðaþjónustu en spár gera ráð fyrir að ferðamenn verði 2,3 milljónir á þessu ári, en þeir voru 1,8 milljónir í fyrra.
Frá því að tilkynnt var um frekari losun fjármagnshafta, 12. mars síðastliðinn, þá hefur gengi krónunnar veikst lítillega gagnvart Bandaríkjadal og evru. Bandaríkjadalur kostar nú 110 krónur en evran 120 krónur. Á síðustu tólf mánuðum hefur gengi krónunnar hins vegar styrkst um 15 prósent, gagnvart þessum tveimur gjaldmiðlum. Samhliða þeirri þróun hefur launakostnaður fyrirtækja hækkað nokkuð.