Björgólfur Thor Björgólfsson, sem á árum áður var einn stærsti eigandi Landsbankans ásamt föður sínum Björgólfi Guðmundssyni, segir að Hauck & Aufhäuser fléttan hafi „allt verið ein lygaflétta.“ Réttnefni á S-hópnum svonefnda sé Svika-hópurinn.
Eins og greint var frá í gær þá telur rannsóknarnefnd Alþingis að blekkingum hafi verið beitt við sölu ríkisins á hlut í Búnaðarbankanum, þar sem Ólafur Ólafsson hefði verið einn aðalleikandinn, frá A til Ö.
Þetta kemur fram í umfjöllun á vef hans, btb.is. „Rétt eins og í Al-Thani málinu nokkrum árum síðar var hönnuð lygaflétta til að blekkja stjórnvöld, markaðinn og almenning. Hópur þjóðkunnra tækifærissinna setti saman Svika-hópinn sem átti ekkert erlent fjármagn og var skuldsettur upp að öxlum, notaðist við lánsfé og tók síðan fleiri lán til viðbótar. Allt einkavæðingarferlið breyttist strax og Svika-hópurinn kom að því. Einkavæðing beggja banka fór þá að miðast í öllu við þarfir þessa hóps og óskir, tímasetningar og framkvæmd öll fór eftir duttlungum hans,“ segir Björgólfur Thor, sem segir mikilvægt að rannsaka einkavæðingu bankanna, þar á meðal einkavæðingu Landsbankans. Hann segir löngur tímabært að segja þá sögu alla og tímabært að stjórnmálamenn standi við yfirlýsingar um gagnsæi.
Hann segir jafnframt að það megi vel líkja Al-Thani málinu svonefnda saman við það sem nú hefur komið fram, um söluna á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum. Í því hlutu æðstu stjórnendur Kaupþings, Hreiðar Már Sigurðsson, Sigurður Einarsson og Magnús Guðmundsson, þunga fangelsdóma, sem og Ólafur Ólafsson. Hann hlaut 4 og hálfs árs fangelsisdóm.
„Svika-hópurinn þurfti samt að sýna fram á, að hann styddist við öflugan, erlendan banka, til að eiga von til þess að ríkið vildi selja þessum samansafni lukkuriddara ráðandi hlut í Búnaðarbankanum. Lengi vel létu þeir eins og franski stórbankinn Société Général væri með þeim í kaupunum, en að lokum reyndist stóri, erlendi bankinn vera lítill, þýskur einkabanki sem enginn þekkti til. Og sá banki bara ómerkilegur leppur Ólafs Ólafssonar. Svo vel þótti Ólafi Ólafssyni og mönnum hans til takast með blekkingarnar, að þeir voru reiðubúnir að endurtaka leikinn rúmum 5 árum síðar, haustið 2008, og þá með riddara á arabískum hesti, sem kom til bjargar á ögurstundu. Um þær æfingar hefur Hæstiréttur haft miður falleg orð: „ . . . þaulskipulögð, drýgð af einbeittum ásetningi og eindæma ófyrirleitni og skeytingarleysi“ „ . . . beindust í senn að öllum almenningi og fjármálamarkaðinum hér á landi í heild“. Þessi orð er allt eins hægt að nota um fléttu Ólafs Ólafssonar og „the usual suspects“ við kaupin á Búnaðarbankanum,“ segir Björgólfur Thor.