„Verði virðisaukaskattur á ferðaþjónustu tvöfaldaður eins og forystumenn ríkisstjórnarinnar hafa boðað mun það hafa í för með sér grafalvarlegar afleiðingar fyrir fyrirtæki og starfsfólk í ferðaþjónustu um land allt.“
Þannig hefst ályktun fundars Samtaka ferðaþjónustunnar frá því í gærkvöldi, þar sem rætt var um fyrirhugaða hækkun á virðisaukaskatti á ferðaþjónustufyrirtæki.
Ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að færa ferðaþjónustuna í hærra virðisaukaskattþrep er í fullu samræmi við stefnu stjórnvalda um að fækka undanþágum í virðisaukaskattkerfinu, segir Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, í viðtali við Morgunblaðið.
Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, mun í dag kynna fjármálaáætlun ríkisins sem felur m.a. í sér breytingar á virðisaukaskattkerfinu.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra greindi fyrstur frá áformunum á ársfundi Samtaka atvinnulífsins í gær en skömmu áður voru forystumenn ferðaþjónustunnar boðaðir á fund Þórdísar Kolbrúnar og Benedikts og þeim gert grein fyrir fyrirhugðum breytingum.
Fer ferðaþjónustan úr 11 prósenta virðisaukaskattþrepi upp í það hærra, sem nú er 24 prósent en stendur til að lækka samhliða breytingunni niður í 22,5 prósent.
Vöxturinn í ferðaþjónustu hefur verið ævintýri líkastur á undanförnum árum, en gert er ráð fyrir að 2,3 milljónir manna heimsæki landið á þessu ári en í fyrra sóttu 1,8 milljónir ferðamanna landið heim.
Óhætt er að segja að þessum áformum stjórnvalda hafi verið kröftuglega mótmælt á fundi í gærkvöldi, og samráðsleysi gagnrýnt. Segir í ályktun fundarins að alvarlegastar verði afleiðingarnar á landsbyggðinni. „Mikil gengisstyrking og kostnaðarhækkanir stefna nú þegar afkomu fyrirtækja í greininni í mikla hættu. Með boðuðum skattahækkunum ríkisstjórnarinnar versnar samkeppnishæfni Íslands til mikilla muna.
Ferðaþjónustan er grunnstoð í íslensku atvinnulífi og með óyfirveguðum aðgerðum ríkisstjórnarinnar er vegið að framtíðarmöguleikum greinarinnar og íslensku efnahagslífi.
Ferðaþjónusta er í eðli sínu alþjóðleg atvinnugrein. Íslensk ferðaþjónustufyrirtæki starfa því á alþjóðlegum markaði og í samkeppni við erlenda áfangastaði þar sem ferðaþjónustan er almennt í lægri þrepum virðisaukaskattskerfisins. Það hefur sýnt sig að þau lönd sem eru t.a.m. með gististaði í efri skattþrepum hafa lotið í lægra haldi í samkeppni við aðra áfangastaði. Tillögur um hækkun á virðisaukaskatti vega þannig alvarlega að samkeppnishæfni Íslands.
Þá lýsa Samtök ferðaþjónustunnar yfir miklum vonbrigðum með samráðsleysi stjórnvalda þegar kemur að eins umfangsmiklum breytingum og fyrirhugaðar hækkanir eru.
Fjölmennur félagsfundur Samtaka ferðaþjónustunnar skorar á ríkisstjórnina að láta af áformum um hækkun virðisaukaskatts á íslenska ferðaþjónustu,“ segir orðrétt í ályktun fundarins.