Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra segir að svörin sem Fjármálaeftirlitið gaf honum varðandi nýja eigendur hlutabréfa í Arion banka séu ekki fullnægjandi. Það sé afar mikilvægt fyrir íslenskt samfélag að það komi skýr svör, því allir hugsi hvort það geti verið að einhver „lundaflétta“ sé í gangi. Þar vísar ráðherrann í aðferðirnar við kaup á Búnaðarbankanum árið 2003, sem fjallað var um í nýrri skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.
Þetta kom fram í kvöldfréttum RÚV. Líkt og greint var frá í kvöld sendi Benedikt ellefu spurningar á eftirlitið í mars og svar eftirlitsins var birt af fjármálaráðuneytinu.
Benedikt sagði á RÚV í kvöld að starfsmenn Fjármálaeftirlitsins séu greinilega ekki komnir langt með að skoða þá sem keyptu hlutabréfin í Arion banka. Aðeins komi fram að það séu dótturfélög tilgreindra kaupenda sem standi að kaupunum líkt og komið hefur fram í fjölmiðlum. „Þannig að það er eiginlega ekkert nýtt þarna,“ sagði ráðherrann. Ítrekað sé bara að ekki sé farin í gang skoðun vegna þess að litið sé svo á að 9,99 prósenta hlutur sé ekki virkur eignarhlutur, en hann stofnast við 10 prósenta eign.
„Ég held að það sé afar mikilvægt fyrir íslenskt samfélag að það komi skýr svör. Það er líka mikilvægt bæði fyrir þessa eigendur og fyrir bankann að það sé ekki tortryggni í garð þessara aðili. Gæti það verið að þarna sé einhver lundaflétta í gangi? Það hugsa allir þannig. Við eigum heimtingu á að vita það og verðum að skoða það strax,“ sagði Benedikt.
Hann geti hins vegar ekki gert mikið sem fjármálaráðherra. „Ég get ekki beitt mér öðruvísi en að spyrja aftur og láta í ljósi þá eindregnu skoðun mína að íslenska þjóðin eigi rétt á að vita þetta.“