Þingmenn stjórnarandstöðunnar spurðu Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherraum viðtal sem hann fór í hjá Financial Times á dögunum í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag. Í viðtalinu var haft eftir honum að núverandi ástand í peningamálastefnu Íslands væri óverjandi og til skoðunar væri að tengja krónuna við annan gjaldmiðil.
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, sagði að í kjölfarið hafi Bjarni Benediktsson forsætisráðherra hlaupið upp til handa og fóta til að bera til baka orð Benedikts. „Telur hæstvirtur fjármála- og efnahagsráðherra að krytur hans og hæstv. forsætisráðherra í alþjóðlegum miðlum auki trúverðugleika íslensks efnahagslífs?“ spurði Katrín Jakobsdóttir hann. „Telur hann slíkar yfirlýsingar samræmast stöðu sinni sem ráðherra fjármála og efnahagsmála?“
Benedikt sagði að hann hefði verið spurður að því hvert verkefni nýskipaðrar peningastefnunefndar yrði. „Ég skýrði það að verkefni nefndarinnar væri í samræmi við stjórnarsáttmála að finna peningastefnu sem myndi leiða til stöðugra gengis á íslensku krónunni og hvaða leiðir væri hægt að fara að því marki. Þá nefndi ég m.a. að Viðreisn hefði bent á myntráð í baráttunni fyrir kosningarnar. Að hægt væri að tengja íslensku krónuna ýmsum stórum gjaldmiðlum. Þeir sem kæmu þá til greina væru Bandaríkjadalur, breska pundið eða evran og ég teldi að evran væri þar langvænlegasti kosturinn.“
Hann sagði þetta eitt af því sem yrði væntanlega skoðað í nefndinni, og að hann gerði engar athugasemdir við það að forsætisráðherra segði þetta ekki yfirvofandi. „Nefndin er ekki búin að skila niðurstöðu. Þegar hún skilar niðurstöðu munum við vinna úr þeim.“
Katrín ítrekaði þá spurningu sína um hvort þessi skoðanaágreiningur jyki trúverðugleika íslensks efnahagslífs. Benedikt sagðist hafa skýrt það hvernig málið hafi komið til og hann gæti ekki borið ábyrgð á því hvernig það væri túlkað. „Það er hins vegar vitað að ekki eru allir sammála um þessa peningastefnu. Ég veit að hæstvirtur forsætisráðherra hefur ekki nákvæmlega sömu áherslur og ég. En það sannar í raun og veru bara það að Sjálfstæðisflokkurinn er ekki útibú frá Viðreisn eins og sumir virðast halda.“
Lilja: Viðtalið furðulegt
Lilja Alfreðsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði að fjármálaráðherra þætti gaman að ræða við erlenda fjölmiðla, en „okkur hinum“ þætti það ekkert sérlega skemmtilegt því orð hans rýrðu trúverðugleika Íslands út á við. „Eins og staðan er í dag er hæstvirtur fjármálaráðherra að bjóða upp á algjöra óvissuferð er varðar peningastefnuna og svo virðist hæstvirtur ráðherra ætla sér að tala gjaldmiðilinn niður á alþjóðavísu. Viðtalið við FT er svo furðulegt að mér datt í hug hvort það gæti hugsanlega verið einhver meiri dýpt í þessu, hvort hæstv. fjármálaráðherra væri sjálfur að gera sig að einhvers konar þjóðhagsvarúðartæki sem virkar þannig að þegar krónan er sterk ætlar hann bara að mæta sjálfur og tala hana niður og svo þegar hún er veik ætlar hann að mæta sjálfur og tala hana upp,“ sagði Lilja.
Hún spurði hvort ekki væri faglegri nálgun að bíða eftir niðurstöðum verkefnisstjórnarinnar, hvort Benedikt þætti heiðarlegt gagnvart þjóðinni að sitja í ríkisstjórn þar sem svona mikill skoðanamunur væri um eitt helsta hagsmunamál þjóðarinnar, og hvort hann þyrfti ekki að leiðrétta þennan misskilning ef orð hans hafi verið tekin úr samhengi.
„Það er einkennilegt að heyra háttvirtan þingmann gera því skóna að menn eigi að hætta að hafa skoðanir um leið og þeir eru komnir í ríkisstjórn. Auðvitað hef ég áfram mínar skoðanir. Ég hef sömu skoðun núna eins og ég hafði fyrir kosningar. Ég hef ekki dregið neina dul á það. Ég hef talið að það væri farsælla fyrir Ísland að hafa aðra peningastefnu, hafa stefnu þar sem væri meira jafnvægi. Ég hef talið að það væri ekki farsælt fyrir útflutningsgreinarnar að vera með gjaldmiðil þar sem evran er á 160 kr. einn daginn, 140 kr. þann næsta og svo komin niður í 112 kr., fer svo upp í 124 kr. og sveiflast fram og til baka, þannig að þeir sem eiga viðskipti í þessari mynt vita aldrei daginn eftir hve mikið þeir fá fyrir sinn snúð. Ég geri enga athugasemd við það að aðrir kunni að hafa aðrar skoðanir á því. Þannig er lýðræðið. Þannig verða skoðanaskipti,“ sagði Benedikt.
Hann sagði einnig að það væri „sannarlega heiðarlegt og gott“ að vera í ríkisstjórn og berjast fyrir markmiðum sínum. Það ættu stjórnmálamenn að gera, hvort sem er í stjórn eða stjórnarandstöðu. „Mér finnst það mjög eðlilegt að við ræðum það hvernig á peningastefnan að vera. Það er margt annað sem við ætlum að breyta. Ef það væri búið að breyta öllu sem mér fyndist að þyrfti að breyta þá þyrfti ég ekki að vera í pólitík lengur, þá væri mínu hlutverki lokið. Það er ekki þannig. Þess vegna er það heiðarlegasta starf sem ég get tekið að mér núna að vera í pólitík og berjast fyrir minni stefnu.“