Reykjavíkurborg ætlar að ná því að byggja 1.250 íbúðir á ári næstu árin til þess að mæta þörf á húsnæði. Þetta kom fram á blaðamannafundi og svo á borgarstjórnarfundi í Reykjavík í dag. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri kynnti drög að húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar á báðum fundnum.
Áður hafði verið stefnan að byggja um 700 íbúðir á ári næstu fimm ár, en vegna fjölgunar starfa og áhrifa íbúðagistingar, Airbnb, þurfi nú að byggja 1.250 íbúðir á ári.
2.577 íbúðir eru í byggingu í borginni, samkvæmt því sem fram kemur í drögum að húsnæðisáætlun. Mest er uppbyggingin á Hlíðarenda þar sem 600 íbúðir munu rísa, og á RÚV-lóðinni í Efstaleiti, þar sem 360 íbúðir munu rísa. 280 íbúðir eiga að rísa í öðrum áfanga Bryggjuhverfis og 203 í Einholti og Þverholti.
Til viðbótar við þetta hefur verið samþykkt deiliskipulag fyrir 2.750 íbúðir, en stærsti hluti þess er í Vogabyggð, þar sem áætlaðar eru 776 íbúðir. Auk þess eru 4.117 íbúðir á svæðum sem eru í skipulagsferli og 9.355 íbúðir á þróunarsvæðum sem eru í skoðun eða undirbúningi.
Frá ársbyrjun þessa árs og til ársloka 2020 er áætlað að borgin úthluti eða samþykki uppbyggingu á um 7.600 íbúðum. Til viðbótar er áætlað að bygging verði hafin á tæplega 4.000 íbúðum á vegum stærri byggingarfyrirtækja.
Í Reykjavík í dag eru tæplega 52 þúsundir íbúða og íbúðareiningar. Meðalstærð þeirra eru 110 m2 og fjöldi fermetra á hvern íbúa er um 45 m2.
Í mati Samtaka iðnaðarins á uppbyggingu íbúða á höfuðborgarsvæðinu fyrir nokkrum vikum kom fram að 1.228 íbúðir væru í byggingu í Reykjavík. SI meta íbúðir í byggingu með öðrum hætti heldur en borgin, sem skýrir þann mun sem er á talningum. Samkvæmt SI eru nú færri íbúðir í byggingu heldur en í september síðastliðnum. Þá voru 1.266 íbúðir í byggingu en nú í febrúar voru þær sem fyrr segir 1.228. Langstærstur hluti þeirra íbúða sem verið er að byggja eru íbúðir í fjölbýli, 1.181 talsins, á meðan verið er að byggja 34 rað- eða parhús og 13 einbýlishús í borginni.