Þorsteinn Víglundsson félags- og jafnréttisráðherra hefur lagt fram frumvarp sitt um jafnlaunavottun á Alþingi. Í frumvarpinu er kveðið á um að í fyrirtækjum með 25 eða fleiri starfsmenn þurfi að ráðast í jafnlaunavottun með sérstakri vottun faggilts vottunaraðila. Vottunina þarf að endurnýja á þriggja ára fresti. Í jafnlaunavottun felst að vinnustaðir undirgangast úttektarferli sem leiðir í ljós hvort þar ríkir launajafnrétti.
Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir því að jafnlaunavottun taki gildi 1. janúar á næsta ári. Frumvarpið nær til 1.180 atvinnurekenda og um 147 þúsund launamanna, eða um 80% þeirra sem eru virkir á vinnumarkaði.
„Kynbundinn launamunur er viðvarandi vandi á íslenskum vinnumarkaði þrátt fyrir viðleitni
stjórnvalda síðustu ár og áratugi til að sporna við honum með vitundarvakningu, lagasetningu og
sértækum aðgerðum í þágu jafnréttis. Þrátt fyrir að rannsóknir sýni að launamunur hafi farið
minnkandi hin allra síðustu ár hér á landi má telja víst að honum verði ekki útrýmt nema með
aðgerðum,“ segir í greinargerð með frumvarpi ráðherrans.
Sá ávinningur sem ætla verði að frumvarpið muni hafa í för með sér vegur þyngra en sjónarmið um íþyngjandi áhrif þess fyrir fyrirtæki og stofnanir, að því er fram kemur í greinargerðinni. Það verði ekki séð að með lögfestingu skyldu til jafnlaunavottunar sé gengið lengra en nauðsynlegt sé.
„Jafnframt er lagt til að mælt verði fyrir um heimild fyrir samtök aðila vinnumarkaðarins til að semja svo um í kjarasamningum að við úttekt á jafnlaunakerfi fyrirtækis eða stofnunar þar sem 25–99 starfsmenn starfa að jafnaði á ársgrundvelli sé unnt að óska eftir staðfestingu hagsmunaaðila á því að þar ríki launajafnrétti í stað þess að óska eftir vottun faggilts vottunaraðila,“ segir í greinargerð með frumvarpinu. Ef samningar nást milli samtaka aðila vinnumarkaðarins hefur fyrirtæki eða stofnun af þessari stærðargráðu eftir sem áður val um það að öðlast vottun ef það svo kýs, í stað staðfestingar hagsmunaaðila.
„Innleiðing jafnlaunastaðalsins krefst stuðnings og þátttöku æðstu stjórnenda og vinnu innan
hvers vinnustaðar. Ljóst þykir því að vinna við ferlið sjálft feli í sér kostnað fyrir fyrirtæki og
stofnanir. Sýnir reynsla fyrirtækja og stofnana sem nú þegar hafa undirgengist jafnlaunavottun á
grundvelli jafnlaunastaðalsins aftur á móti að vinna við hana sé mest í upphafi. Ferli innleiðingar
og úttektar auki almenna starfsánægju og trú starfsmanna á að mannauðsstjórnun
atvinnurekanda sé fagleg. Ferlið bæti enn fremur sýn stjórnenda á starfsmanna- og launamál
sem auðveldi þeim mannauðsstjórnun og rökstuðning við launaákvarðanir. Afraksturinn verði
gagnsærra og réttlátara launakerfi,“ segir ennfremur í greinargerðinni.