Seðlabanki Íslands hefur boðist til að kaupa aflandskrónur á ný. Eigendum innstæða, víxla og skuldabréfa sem útgefin eru af ríkissjóði eða Íbúðalánasjóði og eigendum innstæðubréfa Seðlabanka Íslands er boðið að skipta aflandskrónum sínum á genginu 137,5 krónur fram til 28. apríl næstkomandi.
Um er að ræða sama gengi og aflandskrónueigendum bauðst að fara út á snemma í mars, en þá ákváðu eigendur rúmlega helmings slíkra króna, alls 105 milljarða króna, að ganga ekki að tilboði bankans. Eigendur 90 milljarða króna samþykktu hins vegar tilboðið.
Nýja tilboðið miðar við hagstæðasta kauptilboð á þeim bréfum sem um ræðir þann 10. mars síðastliðinn. Það verð er frá 99 til 120,41 krónur á evru en að viðbættum áföllnum vöxtum, sem Seðlabankinn tilgreinir ekki hverjir eru. Eigendur þeirra bréfa sem fá 120,41 krónur fyrir hverja evru munu því greiða minna en 14,2 prósent álag, að teknu tilliti til áfallinna vaxta, fyrir að fá að fara út úr íslensku hagkerfi. Líkt og áður sagði hafa aflandskrónueigendurnir frest til 28. apríl til að taka tilboði Seðlabankans.
Höfnuðu tilboði Seðlabankans og högnuðust mjög á því
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Seðlabankinn reynir að leysa aflandskrónuvandann með afarkostum gagnvart eigendum aflandskróna. Sumarið 2016, nánar tiltekið 16. júní það ár, fór fram aflandskrónuútboð þar sem Seðlabankinn bauð aflandskrónueigendum að borga 190 krónur fyrir hverja evru. Skráð gegni íslensku krónunnar var þá 138,5 krónur gagnvart evru. Ef tilboðinu yrði ekki tekið átti að setja aflandskrónur viðkomandi inn á vaxtalausa reikninga inni í Seðlabankanum og hleypa þeim síðast allra út úr höftum.
Eigendur um 200 milljarða aflandskróna höfnuðu samt sem áður tilboðinu. Það reyndist mjög skynsamleg ákvörðun í ljósi þess að krónan hefur styrkst gríðarlega síðan þá og þeir allir náð í mikinn gengishagnað vegna þess.
Til viðbótar hefur Seðlabankinn gert þeim mun betra tilboð en áður, eða að greiða 137,5 krónur fyrir hverja evru. Ávinningur þeirra, í evrum talið, er um 38 prósent. Þ.e. þeir fá um 38 prósent fleiri evrur fyrir krónurnar sínar en þeir hefðu fengið ef sjóðirnir hefðu tekið tilboði Seðlabanka Íslands í fyrrasumar.