Arion banki segir að bankinn hafi ekkert afskrifað af skuldum Samskipa þegar fjárhagur félagsins var endurskipulagður árið 2010. Þá hafi engin tengsl verið í rekstri félagsins Kjalars, við aflandsfélög sem Ólafur Ólafsson, eigandi félaganna beggja, hafi átt.
Kjalar fór í gegnum endurskipulagningu árið 2011 og segir í svari Arion banka við fyrirspurnum Kjarnans um hvernig staðið hefði verið að skuldauppgjöri við Ólaf, að eignir félagsins hafi komið í fang bankans, þar á meðal þriðjungshlutur í Granda.
Tekið er fram í svari Arion banka að skuldauppgjörin hafi verið við þessi tvö fyrrnefndu félög, en ekki Ólaf sjálfan.
Í tilviki Samskipa þá hafi Arion banki ekki verið stærsti lánveitandinn heldur Fortis bankinn í Hollandi, og því hafi staða Arion banka markast af því.
Ólafur er enn eigandi Samskipa.
Félög Ólafs voru í viðskiptum við Kaupþing fyrir hrunið, en Ólafur var meðal stærstu hluthafa bankans með tæplega 10 prósent hlut, þegar hann féll í október 2008, ásamt Glitni og Landsbankanum.
Fyrirspurn Kjarnans var svo hljóðandi:
Ég vísa til skuldauppgjörs Arion banka við Ólaf Ólafsson, fjárfesti, og félög sem voru í hans eigu, þegar gengið var frá skuldauppgjöri.
Ég vil fá að vita hvort félög sem nú hefur komið í ljós, að Ólafur notaði til að fela eignarhald á banka árum saman, og er skráð í skattaskjóli, hafi verið gefið upp sem hluti af eignasafninu þegar gengið var til samninga um skuldir.
Fór Arion banki fram á að Ólafur legði öll spilin á borðið við skuldauppgjörið, og gerði hann það? Var þetta félag, sem nú hefur verið opinberað af rannsóknarnefnd Alþingis og átti milljarða eignir, hluti af þeim félögum sem lágu til grundvallar uppgjörinu, sem gerði honum meðal annars mögulegt að halda Samskipum?
Í svari Arion banka segir að ekkert bendi til tengsla þessara félaga, við aflandsfélög sem Ólafur átti, og koma meðal annars við sögu í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um söluna á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum. „Fjárhagsleg endurskipulagning Samskipa fór fram árið 2010. Arion banki var ekki stærsti lánveitandi félagsins heldur var það hollenski bankinn Fortis sem stýrði þar för. Arion banki afskrifaði ekkert af skuldum Samskipa.
Það var svo árið 2011 sem skuldauppgjör Kjalars við Arion banka fór fram. Þá voru allar eignir teknar úr félaginu eftir ítarlega rannsókn á stöðu félagsins. Var t.a.m. 33% hlutur í HB Granda framseldur til Arion banka. Ekkert benti til tengsla við þau félög sem fjallað er um í nýlegri rannsóknarskýrslu í tengslum við sölu Búnaðarbankans árið 2003.
Rétt er að hafa í huga að um er að ræða fjárhagslega endurskipulagningu félaganna en ekki einstaklings,“ segir í svari Arion banka.
Eins og fram kom í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, vegna sölunnar á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum árið 2003, þá er það mat nefndarinnar að Ólafur Ólafsson hafi beitt almenning, stjórnvöld og fjölmiðla blekkingum, ásamt samstarfsfólki í Kaupþingi, í tengslum við aðkomu þýska bankans Hauck & Aufhäuser, að kaupum á hlut ríkisins í bankanum.
Ítarleg skrifleg gögn sýna með óyggjandi hætti að þýski bankinn Hauck & Aufhäuser, Kaupþing hf. á Íslandi, Kaupthing Bank Luxembourg og hópur manna sem vann fyrir og í þágu Ólafs Ólafssonar notuðu leynilega samninga til að fela raunverulegt eignarhald þess hlutar sem Hauck & Aufhäuser átti í Búnaðarbankanum í orði kveðnu. „Í raun var eigandi hlutarins aflandsfélagið Welling & Partners, skráð á Tortóla á Bresku Jómfrúaeyjum. Með fjölda leynilegra samninga og millifærslum á fjármunum, m.a. frá Kaupþingi hf. inn á bankareikning Welling & Partners hjá Hauck & Aufhäuser var þýska bankanum tryggt skaðleysi af viðskiptunum með hluti í Búnaðarbankanum,“ segir í útdrætti skýrslunnar.