Húsgagnaverslunin IKEA ætlar að byggja 36 íbúða blokk í Urriðaholti í Garðabæ sem verður meðal annars hugsuð fyrir starfsfólk fyrirtækisins en einnig kemur til greina að leigja starfsfólki COSTCO og námsmönnum. Leiguverð minnstu íbúðanna verður undir 100 þúsund krónum á mánuði. Ástæða þess að IKEA ræðst í byggingu blokkarinnar er meðal annars sú að halda í gott starfsfólk fyrirtækisins og mæta bráðavanda þess fyrir húsnæði. Blokkin verður fyrsta svansvottaða íbúðarhúsnæðið á Íslandi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íbúðalánasjóði.
Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri IKEA, sagði frá verkefninu á nýafstöðnu málþingi Íbúðalánasjóðs um byggingu hagkvæmra íbúða. Hann segir húsnæðismál starfsfólks líka vera mál atvinnurekenda. „Framtíðarvígvöllur fyrirtækja í framlínurekstri, t.a.m smásölufyrirtækja, verður um hæft starfsfólk. Sá sem nær til sín og heldur hæfasta starfsfólkinu stendur uppi sem sigurvegari. Við höfum ítrekað orðið fyrir því að hæft starfsfólk hefur látið af störfum hjá okkur vegna vandamála sem tengjast húsnæði á einn eða annan hátt,“ sagði Þórarinn meðal annars í erindi sínu. „Fólk hefur hætt hjá okkur af því að það hefur þurft að flytja og endað á stað þar sem það nær ekki lengur strætó í vinnuna. Ef manni er annt um starfsfólkið sitt þá vill maður aðstoða það á þessum erfiða húsnæðismarkaði.“
Í tilkynningu Íbúðalánasjóðs segir að starfsfólk fyrirtækisins sé um 350 manns og að því muni fjölga í 450 á næstu árum. Þórarinn sagði á málþinginu að hátt hlutfall starfsfólksins vera ungt fólk eða innflytjendur og væru margir á hrakhólum varðandi húsnæði. „Þrátt fyrir að við greiðum ágætis laun, þá verður seint hægt að tala um að almennir starfsmenn í smásöluverslun séu í efri tekjumörkum. Það þýðir að stór hluti starfsmanna IKEA ver allt of stórum hluta ráðstöfunartekna sinna í húsnæði sem oft og tíðum er í lélegum gæðaflokki.“ Hann sagði að heppilegt húsnæði, á góðu verði, í göngufjarlægð við vinnustað, nauðsynlega þjónustu og fallega náttúru væri að mati IKEA mjög verðmætt til að laða að starfsfólk. „Ef það að byggja upp og reka leiguhúsnæði fyrir starfsfólk er mögulegt án þess að vinnuveitandi beri af því þungar byrðar, þá getur þetta í raun verið álitlegur kostur.“