Íbúðafélagið Bjarg hyggst byggja 1.150 leiguheimili, langtíma leiguhúsnæði á hagstæðum kjörum, á næstu 4 árum í Reykjavík og Hafnarfirði fyrir rúma 30 milljarða króna.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Bjargi.
„Byggingarmagn er rúmlega 80 þúsund fermetrar sem er eins og að byggja tvær Kringlur,“ sagði framkvæmdastjórinn Björn Traustason í erindi sem hann hélt á fundi Íbúðalánasjóðs í dag, að því er segir í tilkynningu.
Sjóðurinn tilkynnti þar um síðari úthlutun ársins á stofnframlögum til uppbyggingar 124 hagkvæmra leiguíbúða, svokallaðara leiguheimila, fyrir alls 677 milljónir króna. Bjarg er einn þeirra sjö aðila sem fengu úthlutað stofnframlagi hjá Íbúðalánasjóði í dag.
Alls hefur þá verið úthlutað framlögum til byggingar 509 íbúða vegna ársins 2016 í samræmi við lög sem Alþingi setti síðasta haust. Samtals nema framlögin 2,8 milljörðum króna en heildarkostnaður vegna verkefnanna er margföld sú upphæð.
Með stærstu uppbyggingarverkefnum
Björn sagði frá nýju Reykjavíkurhúsunum sem eru hagkvæm íbúðarhús sem Bjarg fyrirhugar að byggja á þéttingarreitum borgarinnar á næstu árum. Alls um 1.000 leiguíbúðir sem verða fyrir einstaklinga og fjölskyldur og fyrir félagasamtök til framleigu.
Um er að ræða eitt stærsta byggingarverkefni sem hefur farið í gang á Íslandi. Reynt verður að fara nýjar og skapandi leiðir í hönnun og útfærslu húsanna til að auka visthæfi þeirra en einnig er markmið að efla félagsauð íbúanna, m.a. með því að skoða möguleika á sameignarrýmum og samnýtingu samgöngutækja. Björn segir að unnið hafi verið með Félagsbústöðum að verkefninu sem fái um 20% íbúðanna og verður þeim blandað inn á milli annarra íbúða. Björn nefndi að mikil áhersla væri lögð á hönnun. „Fólk á ekki að fá á tilfinninguna að það sé í annars flokks úrræði,“ sagði Björn.
Björn gagnrýndi hversu miklum breytingum deiliskipulag hefur tekið á síðasta áratug. „Það hafi meðal annars haft í för með sér hækkaðan byggingarkostnað. Áður fyrr hafi deiliskipulag verið einfalt; teikning sem sýndi lengd, breidd og hæð. Í dag eru deiliskipulagshöfundar oft búnir að teikna húsið alveg og velja á það lit. Flækjustigið sé einfaldlega orðið of mikið,“ segir í tilkynningu.
Fasteignaverð hefur rokið upp að undanförnu og hækkaði það um 18,6 prósent milli ára, miðað við tölur frá því í febrúar á þessu ári. Þjóðskrá hefur bent á að mikil vöntu sé á íbúðum á markaði, en það er eitt af því sem skýrir hvers vegna verðið hefur rokið upp. Um átta þúsund íbúðir vantar inn á markað til að hægt sé að ná jafnvægi á markaðnum, að mati Þjóðskrár.