Árás Bandaríkjanna á valin skotmörk í Sýrlandi felur í sér mikla stefnubreytingu af hálfu Donalds Trumps í utanríkis- og varnarmálum. Í árásinni var 59 Tomahawk flugskeytum skotið á hernaðarlega mikilvæg mannvirki stjórnarhersins, meðal annars skotpall við Sayhtar flugvöllinn í borginni Homs. Þaðan á efnavopnum að hafa verið skotið í síðustu viku, samkvæmt upplýsing sem bandarísk stjórnvöld hafa gefið út, þegar um 80 óbreyttir borgarar féllu, þar á meðal 20 börn.
Árásin var svo til fyrirvaralaus og var ákvörðun um hana tekin af Trump sjálfum, framhjá Bandaríkjaþingi. Skilaboðum var komið til Rússa áður en hún var gerð, en flugskeytunum var skotið af herskipi Bandaríkjahers í Miðjarðarhafi.
Vladímir Pútín, forseti Rússlands, brást illa við árásinni. Hann sagði að hún hefði strax grafið undan samskiptum Bandaríkjanna og Rússa, og að við henni yrði brugðist. Bæði Pútín og Medvedev forsætisráðherra Rússlands fordæmdu einnig lagalega stöðu árásarinnar og sögðu augljóst að um einhliða árás á annað fullvalda ríki væri að ræða, og slíkt myndi ekki samrýmast alþjóðalögum. Pútín hefur sagt að málið eigi að taka upp á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.
Nikki Haley, sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, sagði í viðtali í gær, að Bandaríkin væru tilbúin í frekari átök, og að hernaðaraðgerðirnar myndu þá beinast gegn stjórnarher Sýrlands, sem Assad forseti stýrir.
Í fréttaskýringu á vef New York Times er fullyrt, að með þessari stefnubreytingu sé Trump að stilla Bandaríkjunum upp gegn Rússum, Kína og Norður-Kóreu, jafnvel þó Trump hafi sagt að hann væri „100 prósent“ sammála Xi Jinping, forseta Kína, eftir fund þeirra í gær. Vísaði hann þar til þess að þessi risaveldi hefði skyldum að gegna þegar kæmi að því að stuðla að heimsfriði.