Gunnar Smári Egilsson, fyrrverandi útgefandi og ritstjóri Fréttatímans, er kominn á fullt við að stofna Sósíalistaflokk Íslands, að því er hann segir á Facebook síðu sinni, og nefnir sérstaklega til sögunnar fimm áherslumál í upphafi.
„Fyrstu baráttumál Sósíalistaflokks Íslands eru þessi:
1. Mannsæmandi kjör fyrir alla landsmenn, hvort sem þeir eru launamenn, atvinnulausir, bótaþegar, námsmenn eða heimavinnandi.
2. Aðgengi án takmarkana að öruggu og ódýru húsnæði.
3. Aðgengi án takmarkana að gjaldfrjálsu heilbrigðiskerfi, að gjaldfrjálsri menntun á öllum skólastigum og að gjaldfrjálsu velferðarkerfi sem mætir ólíkum þörfum fólksins í landinu.
4. Stytting vinnuvikunnar, til að bæta lífsgæði fólksins í landinu og auðvelda því að gerast virkir þátttakendur í mótun samfélagsins.
5. Enduruppbygging skattkerfisins svo auðstéttin greiði eðlilegan hlut til samneyslunnar en álögum sé létt af hinum verst stæðu,“ segir Gunnar Smári.
Gunnar Smári var áður stærsti eigandi útgáfufélags Fréttatímans með 46 prósent, og var enn fremur útgefandi, en hann hefur yfirgefið Fréttatímann, á meðan unnið er að endurskipulagningu hans. Útgáfan stendur höllum fæti og framhald útgáfu óljós, en hluti starfsmanna blaðsins fékk ekki greidd laun sín um síðustu mánaðarmót.
Gunnar Smári segir í pistli á Facebook síðu Sósíalistaflokksins að hann vilji að Sósíalistaflokkur Íslands leggi áherslu á að færa „valdið til fólksins“ og jafna rétt og kjör í samfélaginu. „Sósíalistaflokkur Íslands er stjórnmálaflokkur almennings á Íslandi. Markmið hans er samfélag frelsis, jöfnuðar, mennhelgi og samkenndar. Þessi markmið nást eingöngu með því að færa völdin í hendur fólksins í landinu.
Sósíalistaflokkur Íslands er flokkur launafólks og allra þeirra sem búa við skort, ósýnileika og valdaleysi. Andstæðingar Sósíalistaflokks Íslands eru auðvaldið og ráðastéttin. Vettvangur Sósíalistaflokks Íslands er breið stéttabarátta sem hafnar málamiðlunum og falskri samræðu.
Í starfi sínu leggur Sósíalistaflokkur Íslands áherslu á það sem semeinar fólkið í landinu: óréttlætið sem við mætum og vilja okkar til að losna undan því. Við bjóðum alla landsmenn, óháð kyni, uppruna, trú, eða kynhneigð velkomna til nýrrar og breiðrar barátturhreyfingar.
Sósíalistaflokkur Íslands vill að framþróun samfélagsins stýrist af hagsmunum almennings. Þess vegna þarf almenningur að ná völdum, ekki aðeins yfir opinberum stofnunum heldur einnig nærumhverfi sínu. Vinnustaðurinn, verkalýðsfélagið, skólinn, hverfið, sveitarfélagið, þorpið – öll þessi svið eiga að vera undir valddeifðri stjórn þar sem hagsmunir fólksins eru í fyrirrúmi,“ segir Gunnar Smári.