Kaupfélag Skagafjarðar (KS) á samtals um 27,8 milljarða króna í eigin fé miðað við stöðu mála hjá félaginu í lok ársins. Þetta kom fram í inngangsorðum Þórólfs Gíslasonar, kaupfélagsstjóra, á aðalfundi Kaupfélagsins í Selinu, matsal Kjötafurðastöðvarinnar á Sauðarkróki.
Greint er frá þessi á fréttavefnum Feykir.is, sem fjallar um málefni Skagafjarðar.
Hagnaður af rekstri kaupfélagsins í fyrra nam 1,36 milljörðum króna, sem er sambærilegt við rekstrarárið 2015. Samtals áttu 1.424 félagsmenn innistæður í stofnsjóði sem námu 165,6 milljónum króna. Sé horft á eigið fé félagsins deilt niður á hvern félagsmanna, þá er það 19,5 milljónir króna.
Heildartekjur Kaupfélagsins voru 31,2 milljarðar sem er lítils háttar lækkun frá fyrra ári. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði er 4,2 milljarðar og er það sama tala og 2015 og einnig 2014.
Rekstrarhagnaður síðustu fimm ára er því rúmlega 20 milljarðar fyrir afskriftir og fjármagnsliði. Laun og launatengd gjöld voru 7,5 milljarðar á seinasta ári sem er hækkun um hálfan milljarð frá árinu á undan.
Íbúar í sveitarfélaginu Skagafirði voru ríflega 3.900 í byrjun þessa árs, samkvæmt tölum Hagstofu Íslands, og er KS langstærsti vinnuveitandinn á svæðinu. FISK Seafood er hryggjarstykkið í starfsemi kaupfélagsins en helstu rekstrareiningar KS eru mjólkurafurðastöð, kjötafurðastöð, bifreiðaverkstæði, vélaverkstæði, dagvöruverslun og byggingavöruverslun sem er einnig rekstrarvöruverslun fyrir bændur, sem eru félagsmenn.