Húsnæðismál eru viðfangsefni fyrsta þáttar Kjarnans, nýs sjónvarpsþáttar sem hefur göngu sína á sjónvarpsstöðinni Hringbraut í kvöld klukkan 21.
Upplegg þáttanna er þannig að eitt mál verður tekið fyrir í hverjum þætti og það greint. Í síðari hluta hvers þáttar kemur svo viðmælandi sem svarar spurningum um málið.
Ítarleg fréttaskýring um efni hvers þáttar mun birtast inni á Kjarninn.is daginn eftir frumsýningu.
Fyrsta mál á dagskrá eru húsnæðismál. Af hverju er neyðarástand á húsnæðismarkaði, á hvaða hópum bitnar það helst, hverjir græða á því og hvað er hægt að gera? Þetta kryfja þáttarstjórnendurnir Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, og Þórunn Elísabet Bogadóttir, aðstoðarritstjóri.
Í síðari hluta þáttarins situr Þorsteinn Víglundsson, ráðherra húsnæðismála, fyrir svörum og segir frá þeim aðgerðum sem eru í undirbúningi vegna vandans. Þær eru margar hverjar róttækar.