Útgerðarfyrirtækið Skinney Þinganes ætlar að byggja allt að tólf íbúðir og leigja til starfsmanna fyrirtækisins. Helmingur íbúðanna verður klár í haust og afgangurinn um áramót gangi áætlanir eftir.
Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag, en nokkuð hefur borið á því undanfarið að fyrirtæki taki ákvarðanir um að byggja undir starfsmenn sína. IKEA og Bláa Lónið hafa bæði ákveðið að eignast húsnæði fyrir starfsfólk, og bætist nú Skinney í þann hóp.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir að markmiðið sé að tryggja starfsmönnum fyrirtækisins húsnæði, en hornfirski húsnæðismarkaðurinn hefur ekki farið varhluta af fjölgun ferðamanna.
Á Höfn hefur í nokkur ár verið mikill skortur á húsnæði, bæði til kaups og leigu, að því er segir í Morgunblaðinu. „Leigumiðlanir á borð við Airbnb hafa tekið til sín húsnæði í sveitarfélaginu undir gistingu í ferðaþjónustu og erfiðlega hefur gengið að fá iðnaðarmenn til starfa, enda nóg af verkefnum að hafa við uppbyggingu ferðaþjónustunnar, s.s. byggingu hótela og gistiheimila, sem hefur fjölgað hratt á Hornafirði og í nágrenni undanfarin misseri,“ segir í Morgunblaðinu.