Borgarstjórinn í New York, Bill De Blasio, segir að umkvartanir ítalska hönnuðarins Arturo Di Modica, sem hannaði nautið á Wall Street, benda til þess að það sé mikil þörf fyrir Óttalausu stúlkuna. „Menn sem kvarta yfir því að stúlkur sé að taka of mikið pláss eru einmitt ástæðan fyrir því að við þurfum Óttalausu stúlkuna,“ segir De Blasio á Facebook síðu sinni.
Lögmaður Di Modica segir að hann ætli að leita réttar síns, eftir að New York borg heimilaði það að stúlkan yrði áfram á Wall Strett, beint gegn nautinu, eftir að hafa staðið þar í einn mánuð til að minna fyrirtæki á það að leita meira til kvenna.
Nautið var upphaflega sett upp árið 1987, í skjóli nætur, en fékk síðan leyfi til að vera áfram eftir að það varð vinsælt meðal ferðamanna og almennings. Það átti upphaflega að tákna endurreisn markaðarins, en varð síðan táknmynd græðginnar á Wall Street.
De Blasio gaf leyfi til að Óttalaus stúlkan fengi að standa í það minnsta fram á næsta ár. Hann sagði hana senda góð skilaboð um jafnrétti kynjanna, og minnti á nauðsyn þess að gefa konum tækifæri í bandarískum fyrirtækjum.