Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, segir að það sé augljóst að þjónustusamningur sem gerður var við meðferðarheimilið Háholt árið 2014 hafi ekki verið góð nýting á fjármunum. Samningurinn kostaði ríkissjóð milli 450-500 milljónir króna og var gerður í tíð fyrirrennara Þorsteins í embætti, Eyglóar Harðardóttur.
Þjónustusamningurinn var rökstuddur með því að finna þyrfti stað til að vista fanga undir aldri sem dæmdir höfðu verið til óskilorðsbundinnar refsingar. Frá því að samningurinn var gerður hefur einn slíkur fangi verið vistaður í Háholti, sem er staðsett í Skagafirði. Allt í allt hafa að jafnaði 1-3 einstaklingar verið vistaði í Háholti.
Rekstraraðilar Háholts sendu því nýverið velferðarráðuneytinu bréf þar sem þeir óskuðu ekki eftir því að endurnýja þjónustusamninginn sem gerður var í tíð síðustu ríkisstjórnar, og rennur út 1. september næstkomandi. Rekstur heimilisins hættir í lok júní.
Nýtt meðferðarheimili verður byggt
Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, sagði við Kjarnann í gær að að gerð þjónustusamningsins hafi ekki verið góð aðgerð. „Þetta er skelfileg meðferð á opinberu fé,“ sagði Bragi aðspurður um hvort það væri réttlætanlegt að eyða nálægt hálfum milljarði króna í þjónustu fyrir þá fáu einstaklinga sem vistaðir voru á Háholti.
Þorsteinn segist sammála Braga. Það sé augljóst að samningurinn hafi ekki verið góð nýting á fjármunum. „Þetta er úrræði sem hefur verið mjög lítið nýtt á undanförnum árum. Það var bara vistaður einn ungur fangi þarna í nokkra mánuði. Svo er augljóst að dregið hefur úr eftirspurn eftir svona meðferðarúrræðum og mun meiri áhersla er á að sinna þeim sem þurfa á slíkum að halda í nærumhverfi.“
Þorsteinn segir að ákvörðunin um að gera þjónustusamninginn við Háholt hafi á sínum tíma verið umdeild. Ráðuneytið hafi þó ekki lagt í neina vinnu við að greina af hverju ákvörðun um gerð hans hafi verið tekin á sínum tíma. „Það liggur nú fyrir mat Barnaverndarstofu að þetta úrræði sé barn síns tíma. Búið er að taka ákvörðun um að byggja nýja meðferðarstofnun nær höfuðborgarsvæðinu. Því verkefni hefur þegar verið tryggt fjárheimild til uppbyggingar og rekstrarfé. Framkvæmdasýsla ríkisins vildi kanna hvort möguleiki væri á að fá notað húsnæði undir þessa starfsemi áður en ráðist yrði í byggingu á nýju. Því var auglýst eftir notuðu húsnæði en ekkert fannst. Það verður því byggt nýtt húsnæði undir starfsemina. Næstu skref eru að hanna það húsnæði og finna hentuga staðsetningu.“