Gunnar Smári Egilsson segir að Nyhedsavisen, danska útgáfan af Fréttablaðinu, hafi aldrei verið sín hugmynd. Hann hafi búið til, að beiðni eigenda 365 og síðar Dagsbrúnar áætlanir um hvernig Fréttablaðsmódelið gæti litið út á stærri mörkuðum, finna danska aðila til að endurgera Fréttablaðið þar í andi og ferðast um heiminn til að reyna að finna mögulega meðfjárfesta. Jón Ásgeir Jóhannesson hafi viljað fara í fríblaðaútgáfu í London, sem Gunnari Smára reiknaðist til að myndi kosta 90 milljónir króna á dag, og kaupa danska stórblaðið Berlinske Tidende. Af hvorugu varð. Gunnar Smári segir að þrátt fyrir linnulausar ásakanir Jóns Ásgeirs „um að einhver annar hafi tapað peningunum hans er það svo að hann var alveg fullfær um það sjálfur. Hann er svo góður í því að vafamál eru um að nokkur annar Íslendingur hafi tapað meira fé en hann, einn og óstuddur.“
Þetta er meðal þess sem fram kemur í stöðuuppfærslu Gunnars Smára á Facebook í dag.
Tilefnið er nafnlaus skrif í skoðanadálkinn „Stjórnarmaðurinn“, sem birtast í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um efnahagsmál og viðskipti, og útleggingar Björns Bjarnasonar, fyrrverandi þingmanns og ráðherra, á þeim skrifum. Í nafnlausa dálknum er Gunnar Smári viðfangið og þar farið yfir nýleg vandræði Frétttatímans, sem hann stýrði og glímir nú við mikinn rekstrarvanda. Þær aðstæður eru settar í samhengi við það þegar Gunnar Smári stýrði Dagsbrún, félagi sem síðar varð að 365, útgefanda Fréttablaðsins.
Í dálknum er Gunnari Smára meðal annars gefið að hafa sýnt af sér sinnuleysi með annarra manna fé í tengslum við íslensku sjónvarpsstöðina NFS og þegar danska fríblaðið Nyhedsavisen var sett á laggirnar. Þessi meinta slælega rekstrarframmistaða er síðan sett í samhengi við það að Gunnar Smári er nú að stofna Sósíalistaflokk Íslands og varað við því að hann komist í almannafé. „ Það er nefnilega ekkert í langri rekstrarsögu Gunnars Smára sem bendir til þess að fólkið í landinu eigi að treysta honum fyrir almannafé. Um það geta fjölmargir einkafjárfestar vottað,“ segir hinn óþekkti Stjórnarmaður. Björn Bjarnason tekur svo í svipaðan streng í færslu á bloggsíðu sinni.
Delluhugmyndir um að aðrir hafi skuldsett Jón Ásgeir
Gunnar Smári segir í stöðuuppfærslu sinni að Jón Ásgeir haldi sjálfur á penna Stjórnarmannsins og að Björn sé nú að styðja „delluhugmyndir Jóns Ásgeirs um að ég og allir aðrir en hann sjálfur hafi skuldsett hann og ekki borgað skuldirnar hans. Og líklega líka að einhverjir aðrir hafi flutt peninga sem hann svindlaði út úr fyrirtækjum sem honum var treyst fyrir í skattaskjól.“ Síðan rekur hann aðkomu sína að fyrirtækjum Jóns Ásgeirs, sem er enn tengdur Fréttablaðinu og 365 í dag, annars vegar sem eiginmaður aðaleigandans og forstjórans, Ingibjargar Pálmadóttur, og hins vegar sem stjórnandi þess, þótt hans sé ekki getið í skipuriti.
Gunnar Smári fer nokkuð ítarlega yfir Nyhedsavisen-ævintýrið og segir að lokum: „Ég hef enga innsýn inn í hvort það hefði getað lifað af við eðlilegri aðstæður, hef aldrei velt því fyrir mér. Til þess skortir mig reynslu og innsýn inn í danskt viðskiptalíf. Sú litla reynsla sem ég öðlaðist af því benti til að það eru víðar til kolkrabbar en á Íslandi, gamlir peningar standa saman vörð um hagsmuni sína. Það má því vera að það hefði alltaf verið of dýrt að koma Nyhedsavisen í fót; að leiðin upp væri og löng og dýr svo að mögulegur hagnaður á endanum gæti aldrei réttlætt fjárfestinguna. Þetta spursmál var öllum ljóst sem komu að verkefninu og meiriháttar hlægilegt þegar maður sem vill láta líta á sig meiriháttar fjárfestingagúrú skuli halda því fram að það hafi komið sér á óvart, vegna þess að einhver Gunnar Smári benti honum ekki á það. Þrátt fyrir linnulausar ásakanir Jón Ásgeir um að einhver annar hafi tapað peningunum hans er það svo að hann var alveg fullfær um það sjálfur. Hann er svo góður í því að vafamál eru um að nokkur annar Íslendingur hafi tapað meira fé en hann, einn og óstuddur.“