Þingvallanefnd eða þjóðgarðsvörður á Þingvöllum munu þurfa að gefa leyfi fyrir öllum skipulögðum viðburðum og verkefnum innan þjóðgarðsins, samkvæmt frumvarpi Bjartar Ólafsdóttur umhverfis- og auðlindaráðherra. Drög að frumvarpinu voru birt á vefsíðu ráðuneytisins fyrir skömmu.
Verði frumvarpið að lögum verður einnig óheimilt að reka atvinnutengda starfsemi í þjóðgarðinum án samnings við Þingvallanefnd.
Þá skýra lögin heimildir til gjaldtöku innan þjóðgarðsins. Samkvæmt frumvarpinu má ákveða að taka gestagjöld innan garðsins fyrir veitta þjónustu og fyrir aðgang að svæðinu „til að mæta kostnaði við þjónustu, uppbyggingu og viðhaldi innviða, rekstri og eftirlit með dvalargestum.“ Gjöldin munu renna til þjóðgarðsins. Þá verður líka leyfilegt að innheimta gjöld vegna leyfisveitinga og samninga.
„Fjöldi gesta sem leggur leið sína í þjóðgarðinn á Þingvöllum hefur margfaldast á síðustu árum með þeim afleiðingum að ekki hefur verið tækt að halda uppi virkri náttúruvernd, varðveislu menningarminja og vinna að uppbyggingu á svæðinu með fullnægjandi hætti. Kveður frumvarp þetta á um breytingar á núgildandi löggjöf sem er ætlað að stuðla að því að hægt verði að taka á móti öllum þeim fjölda gesta sem leggur leið sína í þjóðgarðinn án þess að röskun verði á náttúru og menningarminjum,“ segir í greinargerð með frumvarpinu.
Breytingarnar eru í samræmi við lög um Vatnajökulsþjóðgarð, en lögum um hann er einnig breytt þannig að heimild er til gjaldtöku í þeim þjóðgarði.
Fram kemur í greinargerðinni að lögin um þjóðgarðinn á Þingvöllum geri yfirvöldum ekki mögulegt að vernda náttúruna með fullnægjandi hætti. Ekki sé hægt að varðveita, viðhalda og vinna að uppbyggingu menningarminja og stuðla að öryggi gesta.