Kínverjar hvetja Norður-Kóreu og Bandaríkin til þess að stíga varlega til jarðar til að forða því að hörmungar brjótist út á Kóreuskaganum. Wang Yi, utanríkisráðherra Kína, segir að ástandið á svæðinu sé varasamt og að átök geti brotist út á hverri stundu.
Þetta sagði hann í dag, en spennan hefur magnast í samskiptum Bandaríkjanna og Norður-Kóreu, eftir að Bandaríkjamenn hafa aukið herstyrk sinn í kringum Kóreuskagann.
Búist er við því að Norður-Kóreumenn geri kjarnorkutilraunir á morgun, daginn sem þess er minnst að 105 ár eru frá því að Kim Il-sung, stofnandi ríkisins, fæddist. Það yrði í sjötta sinn sem slíkar tilraunir yrðu gerðar frá árinu 2006.
„Ef stríð brýst út verður niðurstaðan að allir tapa og enginn getur sigrað. Það er ekki sá sem notar harðara orðagjálfur eða steytir stærri hnefa sem mun sigra.“
Varautanríkisráðherra Norður-Kóreu, Han Song-ryol, sagði fyrr í dag að Norður-Kórea gæti ekki haldið að sér höndum ef Bandaríkin myndu gera árás. Norður-Kórea myndi einnig gera kjarnorkutilraunir þegar það hentaði. Han sagði að ummæli Donalds Trump Bandaríkjaforseta á Twitter væru árásargjörn og yllu vandræðum.
Miklum fjölda erlendra blaðamanna var boðið til Pjongjang, höfuðborgar Norður-Kóreu, til þess að minnast 105 ára afmælis Kim Il-sung, sem er einnig talað um sem dag sólarinnar.
Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, fer til Suður-Kóreu á sunnudaginn. Hins vegar hefur verið gefið út að búið sé að gera aðrar ráðstafanir fyrir hann ef Norður-Kóreumenn gera kjarnorkutilraunir.