Erlendir fjárfestar hafa að undanförnu keypt hlutabréf í fasteignafélögunum þremur sem skráð eru á markað, Eik, Reitum og Reginn, samkvæmt heimildum Kjarnans. Eftir að fjármagnshöft voru losuð hafa erlendir fjárfestar látið sjá sig í auknu mæli á íslenska markaðnum og hafa þeir ekki síst horft til fasteignafélaganna og hlutabréfasjóða sem fjárfesta í þeim.
Sé mið tekið af stöðu félaganna þriggja í lok árs í fyrra þá nam samanlagt eigin fé félaganna 101,3 milljörðum króna. Stærst er Reitir en eigin fé þess nam 46 milljörðum króna í lok ársins. Reitir er með 29 milljarða í eigin fé og hjá Eik var 26,3 milljarðar í lok ársins.
Samanlagt markaðsvirði félaganna er nú 156,6 milljarðar króna, eða sem nemur 1,5 sinnum eigin fé þeirra. Markaðsvirði Reita er 72 milljarðar, Regins 43,3 milljarðar og Eikar 41,2 milljarðar.
Hagnaður félaganna í fyrra nam 10,5 milljörðum króna, eða sem nemur um 10,3 prósentum af eigin fé þeirra. Félögin hafa vitanlega notið góðs af mikilli hækkun fasteignaverðs, en á móti kemur að rekstur atvinnuhúsnæðis hefur einnig farið hækkandi.
Í fyrra var mestur hagnaður hjá Reginn, eða 4,2 milljarðar króna. Hjá Eik var hann 3,6 milljarðar og hjá Reitum 2,7 milljarðar.
Eignir Reita nem 134 milljörðum króna, hjá Reginn eru eignirnar metnar á 84 milljarða og hjá Eik 79 milljarða. Samanlagt eru það 297 milljarðar króna, en eignirnar eru að langstærstu hluta atvinnuhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu.
Í öllum þessu félögum eru lífeyrissjóðir fimm stærstu eigendurnir, samkvæmt upplýsingum á vef Keldunnar, nema hjá Reginn þar sem Sigla ehf., sem er í eigu Tómasar Kristjánssonar og Finns Reys Stefánssonar, er þriðji stærsti hluthafinn með ríflega sex prósent hlut.