Kvika banki framseldi skuldabréf á Pressusamstæðuna – eitt stærsta einkarekna fjölmiðlafyrirtæki landsins – til FÓ eignarhalds ehf., í eigu Fannars Ólafssonar, Andra Gunnarssonar og Gests Breiðfjörðs Gestssonar. Pressan skuldaði Kviku rúmlega 60 milljónir króna í lok árs 2013 en ekki er hægt að fá upplýsingar um hversu há skuldin sem var framseld var. Í svari Kviku banka við fyrirspurn Kjarnans um málið kom fram að bankinn gæti ekki tjáð sig af eða á um málið. Auk þess væri ekki hægt vegna trúnaðar að veita upplýsingar um hvort einhverjar skuldir Pressunnar hefðu verið afskrifaðar.
Í fyrradag var greint frá því að nýir hluthafar væru að taka við Pressunni, samstæðu tæplega 30 fjölmiðla. Hún hefur á undanförnum árum verið byggð upp af Birni Inga Hrafnssyni og að mestu hefur uppbyggingin farið fram með skuldsettri yfirtöku á fjölmiðlum. Þekktustu miðlarnir í samstæðunni eru DV, DV.is, Eyjan, Pressan, ÍNN og tímaritaútgáfa Birtings. Við aðkomu nýju hluthafanna stígur Björn Ingi til hliðar og verður ekki í neinni stjórnunarstöðu. Hann mun heldur ekki sitja í nýrri stjórn Pressunnar. Eina aðkoma hans verður sem hluthafa með á bilinu 14-16 prósent eignarhlut og sem stjórnanda sjónvarpsþáttarins Eyjan á ÍNN. Björn Ingi og viðskiptafélagi hans, Arnar Ægisson, eiga þó einnig kauprétt á meira hlutafé en ekki hefur verið upplýst hver hann sé. Stærsti eigandinn eftir hlutafjáraukninguna verður félag sem er stýrt af viðskiptafélögunum Róberti Wessman og Árna Harðarsyni.
Fengu skuldabréf sem hluta af öðru uppgjöri
Einn hinna nýju eigenda Pressunnar er félagið FÓ eignarhald ehf. Á meðal þeirra eigenda þess er Fannar Ólafsson. Hann segir í samtali við Kjarnann að aðkomu FÓ megi rekja til þess að félagið hafi fengið skuldabréf á Pressusamstæðuna framselt frá Kviku banka sem hluta af öðru viðskiptauppgjöri. Það sé hans aðkoma að málinu. Hann sé að reyna að fá umrætt skuldabréf greitt. Í svari frá Kviku við fyrirspurn Kjarnans segir að bankinn ekki geta tjáð sig um málið. Hann sagðist auk þess ekki geta tjáð sig um hvort Kvika hefði afskrifað einhverjar skuldir Pressunnar.
Skuld Pressunnar við Kviku er tilkomin vegna þesss að félagið yfirdrátt hjá MP banka, fyrirrennara Kviku, fyrir nokkrum árum. Hann var upp á rúmlega 60 milljónir króna í lok árs 2013 Arnar Ægisson, fráfarandi framkvæmdastjóri Pressunnar, staðfesti við Vísi fyrir tveimur árum upphæð yfirdráttarins og að hann væri hjá MP banka.
Ástæða þess að sú skuld vakti athygli, og var til umfjöllunar í fjölmiðlum, var sú að tvær systur, Malín Brand og Hlín Einarsdóttir, reyndu að kúga fé út úr Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, þáverandi forsætisráðherra, snemma sumars 2015. Í fjárkúgunarbréfi sem þær sendu hótuðu þær að gera opinberar upplýsingar sem áttu að koma ráðherranum illa. Þær snérust um að Sigmundur Davíð eða aðilar tengdir honum hafi haft aðkomu að því að Pressan ehf. hafi fengið lánafyrirgreiðslu hjá MP banka þegar félagið keypti DV. Sigmundur Davíð hefur hafnað því að hann hafi fjárhagsleg tengsl við Björn Inga Hrafnsson og að hann hafi komið að kaupum á DV á nokkurn hátt. Björn Ingi sagði sömuleiðis að forsætisráðherra hafi ekki fjármagnað kaup Pressunnar á DV og að hann eigi ekki hlut í blaðinu. Bankinn vildi sjálfur ekki tjá sig um málið efnislega þar sem hann taldi sig ekki geta rofið trúnað við viðskiptavini sína.
Kjarninn birti í gær ítarlega fréttaskýringu um þær sviptingar sem átt hafa sér stað á íslenskum fjölmiðlamarkaði undanfarin mánuð. Þar er meðal annars farið yfir breytingarnar sem eru að eiga sér stað á Pressusamstæðunni. Fréttin byggir á þeirri fréttaskýringu. Hana má lesa í heild sinni hér.