Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna og fyrrverandi forstjóri olíurisans Exxon Mobile, segir Íran vera ógnandi í framkomu sinni við Bandaríkin og að stefna landsins „gangi gegn bandarískum hagsmunum“.
Þá segir Tillerson að Íran séu með miklar ögranir við Bandaríkin, en í bréfi sínu til fulltrúadeildar Bandríkjaþings fer hann yfir stöðuna á samskiptum Bandaríkjanna og Írans. Í forsetatíð Baracks Obama náðist samkomulag við stjórnvöld í Íran um að kjarnorkuafvopnun.
Ekkert bendir til þess að Íran hafi farið gegn því samkomulagi, en að mati Tillerson stjórnvöld beitt sér með margvíslegum hætti gegn bandarískum hagsmunum, meðal annars með stuðningi við uppreisnarmenn í Jemen, að því er segir á vef BBC.
Tillerson segir að allt eins megi búast við því að Íran fari fram með svipuðum hætti og Norður-Kórea, og reyni að draga heiminn með sér.
Tillerson segir jafnframt að ef það eigi að taka upp samkomulagið við Íran og gera breytingar, þá þurfi að horfa til þeirrar ógnar sem stafar nú af stjórnvöldum í landinu sem væru nærri ófriði á Miðausturlöndum á mörgum vígstöðum.
Sú staða væri algjörlega óviðunandi fyrir Bandaríkin.
Donald Trump, Bandaríkjaforseti, hefur sagt að hann sé tilbúinn til þess að gera breytingar þegar kemur að samkomulaginu um afvopnun Írans, en ekki hefur verið útlistað nákvæmlega hvernig. Sé mið tekið af orðum Tillerson er ríkur vilji til þess hjá stjórnvöldum í Bandaríkjunum að halda Íran í skefjum.