Íslandshótel, stærsta hótelkeðja landsins, mun endurskoða byggingu hótela ef virðisaukaskattur á ferðaþjónustu verður hækkaður á næsta ári líkt og stendur til. Um er að ræða stækkun Grand Hótels, byggingu nýs hótels í Lækjargötu og hótels á lóð gamla Sjallans á Akureyri auk þess sem fyrirhuguð stækkun Fosshótels á Barónsstíg í Reykjavík verður sett á ís. Þetta segir Ólafur Torfason, stjórnarformaður og stofnandi Íslandshótela, í Morgunblaðinu í dag. Hann segir enn fremur að núverandi ráðamenn hafi lofað því fyrir síðustu kosningar að virðisaukaskatturinn yrði ekki hækkaður, og nefnir þar sérstaklega Guðlaug Þór Þórðarson utanríkisráðherra. „Hann [Guðlaugur Þór] fullyrti að það væri engin hækkun á virðisaukaskatti fram undan. Maður horfði bláeygður í augun á þessum mönnum þegar þeir lofuðu óbreyttum virðisauka. Það er óskiljanlegt hvernig menn geta gengið svona á bak orða sinna.“
Í blaðinu er einnig haft eftir Ólafi að rekstur hótela geti ekki tekið á sig hækkun virðisaukaskatts, en til stendur að færa ferðaþjónustuna úr lægra þrepi skattsins í það efra. Í dag er lægra skattþrepið 11 prósent en það efra 24 prósent. Til stendur að lækka það efra í 22,5 prósent samhliða færslu ferðaþjónustunnar, stærstu atvinnugreinar þjóðarinnar, í það þrep.
Ólafur varar við því að hægari uppbygging hótela muni setja enn meiri þrýsting á íbúðamarkað og gera ungu fólki enn erfiðara fyrir að kaupa íbúðir.
Íslandshótel hagnaðist um ríflega tvo milljarða króna á árunum 2010-2016. Mestur var hagnaðurinn á árinu 2015, eða 613 milljónir króna. Íslandshótel hafa ekki skilað ársreikningi fyrir árið 2016.
Ólafur Torfason á 75 prósent hlut í keðjunni. Íslandshótel er líkt og áður sagði stærsta hótelkeðja landsins og rekur 17 hótel um allt land. Á meðal þeirra eru Grand hótel í Reykjavík og öll Fosshótel landsins.