Donald J. Trump, Bandaríkjaforseti, boðar miklar skattalækkanir, einkum fyrir fyrirtæki, en áætlun þess efnis verður kynnt á næstu dögum, samkvæmt yfirlýsingum hans í viðtali við fjölmiðla í gær.
Í viðtali við AP-fréttastofuna segir Trump að nýja skattalöggjöfin feli í sér „mestu skattalækkanir sögunnar.“ Á meðal þess sem horft er til er að gera fyrirtækjum kleift að forðast skattgreiðslur með frekari fjárfestingum og tilfærslum í bókhaldi. Þá segir Trump að skattar verði einnig lækkaðir á einstaklinga:
Nú þegar hefur fjárlagafrumvarpið verið kynnt, en í því felst mikill niðurskurður hjá flestum undirstofnunum ríkisins, en á móti verða framlög til hersins aukin um 10 prósent, sem nemur um 54 milljörðum Bandaríkjadala, eða sem nemur um sex þúsund milljörðum króna. Heilt yfir gera fjárlögin ekki ráð fyrir miklum niðurskurði.
Boðaðar breytingar á skattalöggjöfinni eru sagðar víðtækar, og á eflaust eftir að ganga á ýmsu í Bandaríkjaþingi þegar rætt verður um breytingarnar.
Steve Mnuchin, fjármálaráðherra, segist vona að ný stefna í skattamálum verði komin að fullu til framkvæmda á seinni hluta þessa árs eða í byrjun næsta árs.