Útgönguspár benda til þess að miðjumaðurinn Emmanuel Macron og Marine Le Pen hafi borið sigur úr býtum í fyrri umferð frönsku forsetakosninganna, að því er fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins BBC. Seinni umferðin fer fram eftir tvær vikur, 7. maí, og mun valið standa á milli þeirra tveggja.
Macron er sagður hafa fengið 23,7 prósent atkvæða og Le Pen hafi fengið 21,7 prósent.
Alls buðu 11 sig fram til forseta, en ljóst má vera að mikil spenna verður í annarri umferð kosninganna..
Macron er fyrrverandi efnahagsmálaráðherra Frakklands í stjórn Sósíalistaflokksins. Hann sagði sig úr honum og stofnaði nýjan stjórnmálaflokk í ágúst til að bjóða sig fram til forseta, og hefur haft byr í seglum í kosningabaráttunni á undanförnum vikum.
Jean-Marie Le Pen, faðir Marine Le Pen sem nú berst um forsetaembættið, stofnaði Þjóðfylkinguna í Frakklandi fyrir ríflega fjörtíu árum og hefur meginstefið í flokknum verið þjóðernishyggja. „Frakkland fyrir Frakka“ var lengi vel slagorð flokksins, en Marine Le Pen, hefur reynt að milda ásýnd flokksins á undanförnum vikum, og talað fyrir umburðarlyndi.