Illugi Gunnarsson verður gerður að stjórnarformanni Byggðastofunar á ársfundi hennar á morgun, þriðjudag. Það er Jón Gunnarsson, ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála, sem velur Illuga í starfið. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag. Laun stjórnarformanns Byggðastofnunar voru 2,4 milljónir króna á árinu 2016.
Illugi var mennta- og menningarmálaráðherra í síðustu ríkisstjórn og áberandi í forystu Sjálfstæðisflokksins um árabil. Hann ákvað að bjóða sig ekki fram fyrir síðustu kosningar, sem fóru fram haustið 2016. Illugi starfaði þó áfram sem ráðherra á meðan að verið var að mynda ríkisstjórn, sem tók mun lengri tíma en vanalega. Því gengdi hann starfi mennta- og menningarmálaráðherra fram í janúarmánuð, þegar ný ríkisstjórn tók við. Illugi er því enn á biðlaunum sem ráðherra.
Í mars var skipuð verkefnastjórn um endurmat á peningastefnu. Bjarni Benediktsson forsætisráðherra skipaði hana. Í henni sitja m.a. Illugi. Auk hans eru sitja í nefndinni hagfræðingarnir Ásgeir Jónsson, efnahagsráðgjafi Virðingar og dósent, og Ásdís Kristjánsdóttir, sem starfar hjá Samtökum atvinnulífsins. Forsætisráðuneytið segir alla sem í hópnum sitja vera með „menntun, reynslu og þekkingu á peningastefnumálum sem nýtast mun í starfi verkefnisstjórar.“